Þessi 8. flokkur í Kaldárseli verður umtalaður um ókomna framtíð, bæði af börnum og foringjum.

Veðrið á mánudaginn var alls ekki spennandi en það hefur svo sannarlega ræst úr vikunni! Og einmitt þegar ég hélt að sumarið væri á enda…
Á miðvikudaginn fórum við í undirbúningsgönguferð fyrir LARP Harry Potter leik um kvöldið (LARP=Live Action Role Play). Eftir kaffitímann voru haldnir hinir margfrægu Kaldárselsleikar. Þar var keppt í greinum eins og flugusöfnun og fleiru í þeim dúr. Eftir kvöldmat var svo farið í HARRY POTTER leikinn! Undirbúningurinn hafði tekið dágóðan tíma enda lögðu foringjarnir mikinn metnað í leikinn. Og hann heppnaðist eftir því. Þvílík velgengni. Og það spillti ekki fyrir að farið var að rökkva þegar Voldemort (vondi kallinn) loks barðist við Harry í Hogsmead (skóginum við Sandfell). Krakkarnir voru að missa sig úr spenningi og lærðu alla réttu galdrana…einkum til að halda frá sér vitsugum; "Expecto Patronum", heyrðist óma um víðan völl. Svartur labradorhundur lék Sirius Black (guðföður Harry) og þurftu krakkarnir að frelsa hann úr höndum vitsugu í Azkaban. Herra Ollivander seldi hverju og einu barni akkúrat rétta sprotann! Það fer ekki á milli mála að foringjarnir skemmtu sér ekki síður en börnin.
Í gær var veisludagur og eftir hádegismat var krökkunum skipt í þrjá hópa; skreytingahóp, baksturshóp og leiklistarhóp. Um kaffileytið var svo veisla sett í Kaldárseli. Í kaffitímanum var Michael Jackson danspartý og því næst var hoppað í hoppukastala, hí ha og húllumhæ út um allan bæ.
Eftir kvöldmat var haldin kvöldvaka í Valabóli og þar á eftir gistu þeir hugrökkustu í HELLI! Flestar stelpurnar gistu í hellinum, ég sjálf meðtalin. Strákarnir vildu bara eitthvað kósý.
Við vöknuðum við fuglasönginn og sólina snemma í morgun, þetta var nú alls ekki svo slæm nótt. Reyndar sváfu krakkarnir mun betur en við foringjastelpurnar, enda vorum við alveg við hellismunnann.
Við tókum því rólega fyrir hádegi í morgun, enda allir uppgefnir eftir frábæra og viðburðaríka viku. Nú eru krakkarnir á leið í síðustu gönguferðina…í bili…en ég segi það full sjálfstrausts að ég býst við því að sjá alla þessa krakka hjá okkur aftur ekki seinna en næsta sumar!!!
Myndir frá miðvikudegi og fimmtudegi má nálgast
hér.
Góðar stundir, foreldrar, við sjáumst á eftir.