Aðfararnótt síðastliðins mánudags fauk þakklæðning af hluta sumarbúða KFUM og KFUK í Kaldárseli, en sumarbúðirnar eru í hrauninu fyrir ofan Hafnarfjörð.

Þegar björgunarflokkur kom á staðinn upp úr hádegi á mánudag var ljóst að allmargar bárujárnsplötur á þaki elsta hluta húsnæðisins höfðu fokið og þakpappinn með. Vindhviður voru gífurlega sterkar þessa helgi og mældist vindhraði í Bláfjöllum 35m/sek. Reikna má með að vindhraði hafi ekki verið minni í Kaldárseli. Útiborð úr tré með áföstum bekkjum tókst einnig á loft og brotnaði í marga hluta. Mikil mildi þykir að ekki skyldi neinn verða fyrir þessum fljúgandi hlutum og slasast.

Mikil rigning fylgdi storminum og komst mikið vatn inn í borðsalinn, niður með útveggjum og einnig lak vatn niður úr loftinu ofan á borð og stóla.

Mikill skaði varð á krossviðarklæðningu inni í matsal, en viðarklæðningin hefur sett skemmtilegan svip á staðinn síðan á sjötta áratugnum. Hún var alfarið framleidd hérlendis á haftatímum eftirstríðsáranna, því er ákveðinn hluti iðnsögu Íslendinga og menningarsaga hálfónýt.

Regnvatni hefur nú verið dælt úr matsalnum og verið er að þurrka hann með blásurum. Þakpappa hefur verið komið fyrir til bráðabirgða á þeim hluta þaksins sem plöturnar fuku af.

Við fyrstu athugun er augljóst að skaðinn er tilfinnanlegur og líklega verður að skipta um allt járn á þaki hússins. Veggklæðningar eru eins og áður sagði hálfónýtar og verður að endurnýja alla innri klæðningu matsalarins. Vonast er til þess að hægt verði að ljúka viðgerðum áður en sumarbúðastarfið hefst í júní.

Á þriðja hundrað börn sækja sumarbúðir KFUM og KFUK í Kaldáseli á hverju sumri og hefur starfið verið fjölbreytt og vinsælt.

Skaðinn af þak- og vatnsskemmdum verður að hluta greiddur úr tryggingum en allur annar óumflýjanlegur kostnaður sem fylgir svona áfalli verður sumarbúðastarfið að greiða. Kaldársel á ekki neitt lausafé né viðhaldssjóð og leitar því til allra velunnara um fjárhagsaðstoð eða hvern þann stuðning sem velunnarar og gamlir Kaldæingar geta látið af hendi til uppbyggingar eftir þessi óvæntu áföll.

Sjá myndir og nánar á heimasíðu okkar á slóðinni; www.kfum.is

Opnaður hefur verið reikningur af þessu tilefni sem er 515-14-404800 kennitala Kaldársels er 480883-0209.