Þvílíkur dagur! Sól og blíða fyrripartinn, öskuský seinni partinn. Það kom þó ekki í veg fyrir að dagurinn yrði frábær, því þetta var svo sannarlega það; frábær dagur! Í tilefni af hinum svokallaða veisludegi er aðeins brugðið útaf venjunni hér í Kaldárseli. Við fengum í heimsókn hoppukastala, grilluðum sykurpúða á lifandi eldi úti í hrauni og margt fleira.
Við byrjuðum daginn venjulega, á morgunmat, morgunstund og svo framvegis. Eftir morgunstund héldu sumar áfram að mála kofana sína og það liggur við að það væri hægt að nýta suma þeirra sem opinbera svefnskála til viðbótar við stóra húsið, því þeir eru allir stórglæsilegir. Ein stúlkan er meira að segja búin að byggja handa okkur bílskúr fyrir kassabílana og mála hann í viðeigandi litum! Rétt fyrir hádegi kom svo hoppukastalinn og hann hefur vakið mikla gleði í allan dag. Stelpurnar snæddu Pasta Carbonara í hádegismat sem ráðskonan reiddi fram af mikilli snilld með hjálp eldhússtúlknanna. Eftir hádegi færðum við okkur útí hraun til að borða eftirmat. Hann var ekki af verri endanum því að varðeldur og poki af sykurpúðum biðu okkar, hann var ekki lengi að klárast. Svo voru Furðuleikarnir haldnir með pompi og prakt og þar tóku stelpurnar meðal annars þátt í rúsínu-spýtingu, stígvélasparki, kartöflupoka-hlaupi og stultuskrefa-keppni. Ólympíuleikar hvað! Eftir það tók til undirbúningur undir veislukvöldverð. Stelpurnar klæddu sig í sín fínustu klæði og Dúna foringi bauð upp á fegurðar-meðferð sem fólst meðal annars í naglalökkun, fléttun og fótabaði. Þegar tíminn var kominn marséraði þessi fríði flokkur niður í matsal þar sem dýrindis pizza beið okkar. Eftir kvöldverðinn var venju samkvæmt hátíðarkvöldvaka þar sem foringjarnir sáu um skemmtiatriðin. Sem foringi skemmti ég mér konunglega og sú gleði smitaði útfrá sér og þetta var frábær kvöldvaka. Síðasti dagurinn er liðinn og stelpurnar eru orðnar óþreyjufullar að komast heim og deila reynslunni. Sjáumst í Kaldárseli á morgun!