2. dagur leikjanámskeiðsins er á enda kominn. Við foringjarnir höfum kvatt káta krakka sem eru á leið heim eftir skemmtilegan og viðburðaríkan dag. Við komu var fánahylling og morgunstund að venju, svo tók við morgunverður þar sem börnunum gafst færi á að hlaða batterýin fyrir átök komandi klukkutíma. Ekki veitti heldur af, því krakkarnir hafa leikið, sungið, skoppað og skrýtlað í allan dag. Eftir morgunmat var boðið uppá æsispennandi ratleik sem leiddi hópinn um allt svæðið þar sem þeirra biðu þrautir og gátur af öllu mögulegu og ómögulegu tagi. Að lokum völdum við svo einn hóp sem okkur þótti koma með skemmtileg og frumleg svör þótt allir hafi staðið sig með mestu prýði. Þrátt fyrir einstaka skúrir höfum við haldið okkur að mestu leyti úti og eftir hádegismat var ganga. Ferðinni var heitið í Fjárhella, eða Kaldárselshella eins og þeir eru stundum kallaðir. Þar myndaðist fyrir rúmlega 7000 árum skemmtileg hellaröð sem liggur í nánast fullkomnum hring og skemmtilegt að skoða og klöngrast innan um náttúrulegar klettamyndanir. Einn foringi skaust á undan hópnum til að fela í hellunum fagurlega saumaða grjónapoka fyrir krakkana að finna. Það er oft skemmtilegt að hafa eitthvað verkefni eða markmið og að lokum fundust allir grjónapokarnir þótt þeir væru vel faldir. Þegar við komum heim úr göngunni beið okkar nýbakað bananbrauð með smjöri og osti, kaka og skornir ávextir. Eftir kaffi voru skipulagðir leikir og skemmtun á meðan við biðum eftir foreldrunum. Köttur og mús var vinsæll leikur og gamla víkingaspilið Kubbur líka. Um hálf fimm leytið var farið að rigna all-hressilega og því héldu sig flestir inni meðan beðið var. Takk fyrir daginn krakkar!
Kv. úr Kaldárseli.