Frá Tinnu Rós Steinsdóttur, forstöðukonu í 3.flokki í Kaldárseli:
Þá er komið að síðasta deginum okkar hérna í Kaldárseli.
Gærdagurinn var mjög hress, en eftir að hafa grillað pylsur í hádegismatinn og borðað úti í sólinni héldum við Kaldárselsleika þar sem keppt var í hinum ýmsu greinum. Ríkharður Aron stóð uppi sem sigurvegari leikanna með 14 stig, en allir fengu 1 stig fyrir að taka þátt í hverri grein, sigurvegari hverrar greinar fékk 3 stig og sá sem lenti í 2.sæti fékk 2 stig. Keppt var í ýmsum greinum, þar á meðal stígvélasparki, rúsínuspýtingum, kraftakeppni, húshlaupi, eggjahlaupi, sippukeppni og á stultum. Auk þess var í boði andlitsmálning sem þeir nýttu sér flestir og var gaman að sjá þá hlaupa um útmálaða og ævintýralega – mátti þar t.d. sjá bangsaandlit, grímuklædda menn, eðlur og dreka.
Eftir að leikum lauk fengu strákarnir að leika lausum hala í hoppukastalanum og á smíðavellinum þar til þeir settust í kaffitíma þar sem þeir fengu skinkuumslög og eplaköku að borða. Eftir kaffi var ákveðið að nýta góða veðrið og farið var með þá í göngutúr yfir Sandfell og þaðan að Helgafellsrótum þar sem þeir fengu að skrifa nafnið sitt í steinana í fjallinu. Við heimkomu fóru svo allir í fínu fötin sín áður en við settumst til veislumatar. Við fengum pizzu að borða og 1 gosglas hver. Eftir matinn fórum við í stuttan þrautakóng sem endaði í limbói inní kvöldvökusal. Kvöldvakan var svo alfarið í umsjá okkar foringjanna og þótti strákunum mikið til leiklistarhæfileika okkar koma. Eftir að hafa sýnt þeim hvert leikritið á fætur öðru skiptum við yfir í rólegri gír og hlustuðum á Rakeli foringja segja okkur stutta hugleiðingu um það að við eigum að vera jákvæð og trúa á sjálf okkur. Eftir það fengu allir strákarnir ís í verðlaun fyrir hvað þeir voru stilltir og ég las fyrir þá söguna um Salmonellu Mirabellu og frú Bonkojevju úr bókinni „Við Guð erum vinir“.
Strákarnir fóru allir sælir og sáttir í rúmið um klukkan 22:30 voru síðustu að festa svefn um 23:30 – alveg búnir á því.
Fyrstu vöknuðu klukkan 07:30 í morgun, en góð ró hélst þó til að ganga 8:30 þegar allir fóru á fætur og komu í morgunmat. Á morgunstundinni sýndi ég þeim myndir frá því þegar ég fór til Afríku og sagði þeim frá þeirri ferð og kristniboðinu sem er í gangi þar. Að lokinni morgunstund fóru allir og pökkuðu dótinu sínu á mettíma og fóru út að leika sér í góða veðrinu.
Sólin sem hafði hótað komu sinni í gær hefur enn ekki látið á sér kræla en virðist þó vera handan hornsins – en við vonum það besta. Nú rétt í þessu er að hefjast foringjabrennóleikur þar sem við foringjarnir ætlum að spila gegn strákunum. Verður spennandi að sjá hvernig það fer. Eftir hádegismat ætlum við svo að skella okkur í enn eina gönguna en í dag er stefnan tekin á 100 metra hellirinn hérna rétt hjá.
Myndir eru væntanlega inn á heimasíðuna!
Við hlökkum svo mikið til að sjá alla foreldra hérna í Kaldárseli á eftir klukkan 17:00
Þangað til þá…
Tinna Rós forstöðukona.