17 galvaskir drengir komu með rútunni upp í Kaldársel í gær og var byrjað á að koma sér vel fyrir herbergjunum áður en þeir hlupu út og fengu að kynnast svæðinu. (Kaldá var sérstaklega vel skoðuð). Í hádegismat var pasta með skinku og tómatssósu og dýrindis Kaldáar vatn drukkið með. Eftir að hafa fyllt magann vel var haldið af stað á vit ævintýranna og urðu Kaldárselshellar næsti viðkomustaður drengjanna. Þegar komið var í kaldárselshella leituðu drengirnir að földum kubbum og stóðu sig býsna vel í að finna þá og svo var hver og einn hellir grandskoðaður áður en lagt var aftur af stað í Kaldársel. Þar biðu okkar smurðar samlokur og dýrindis súkkulaði kaka sem þær Margrét og Bella í eldhúsinu höfðu hrisst fram úr erminni.
Eftir kaffið var farið út að vaða, smíða og leika sér á kassabílum. Nokkrir piltar fóru upp að æfa leikrit fyrir kvöldvökuna. Leikritið „Ninjur og töframenn“ var svo sýnt við mikinn fögnuð á kvöldvökunni. Svo var sungið og trallað þar til kominn var tími á ró og næði. Anna sagði þeim þá sögu áður en farið var niður að fá sér ávexti fyrir svefninn. Flestir voru snöggir í háttinn og tilbúnir að fara að sofa, enda þreyttir eftir langan dag.

Í morgun vöknuðu svo allir kl 9 og fóru í morgunmat. Í boði var ýmislegt hollt og gott til að mynda cheerios, corn flakes og ljúffengur hafragrautur með kanil og rúsínum. Flestir borðuðu vel af morgunmatnum. Síðan var farið út og fáninn hylltur áður en haldið var upp í morgunstund.
Þar töluðum við svolítið um hermenn og hvert hlutverk þeirra væri í raun og veru. Ýmsar vangaveltur komu fram í þessu spjalli en fyrir rest urðum við sammála um að hlutverk hermanna væri fyrst og fremst að vernda land sitt og þjóð. Við komumst að því að í Biblíunni stendur að við eigum að vera hermenn Krists svo við fórum að velta fyrir okkur hvað hermenn Krists eiga að vernda. Þeir hljóta að eiga að vernda alla sköpun Guðs. Hvað hefur Guð skapað? Jú, jörðina, fólkið, dýrin og allt sem er í kringum okkur. Við lásum í Biblíunni um að hermenn Krists væru gyrtir sannleikanum um lendar, skóaðir fúsleik til að flytja friðarboðskap, með brynju réttlætis, hjálm hjálpræðis, skjöld trúarinnar og með sverð sem væri orð Guðs – Biblían. Við teiknuðum upp hermann Krists í fullum skrúða – þeim þótti reyndar ekki mikið til teiknihæfileika undirritaðrar koma en tóku viljann fyrir verkið. Eftir þetta spjall voru þeir allir á því að þeir vildu vera hermenn Krists og gera sitt besta til að vernda þá sem minna mega sín, hjálpa þeim sem verið er að stríða, vernda náttúruna og standa alltaf með sannleikanum og reyna að stilla til friðar ef upp koma rifrildi.
Eftir þetta spjall fóru allir út í hraun að búa til herbúðir. Áhuginn entist reyndar skammt svo nokkrir eru núna komnir inn í íþróttahús eða frammi í fótboltaspili á meðan aðrir eru enn úti að byggja virki.

Eftir hádegismatinn stefnum við á langan göngutúr með nesti í tösku á vit ævintýranna.
Greinilega spennandi vika framundan.
Kveðja
Anna Arnardóttir forstöðukona og Siggi Jón yfirforingi.