Í gær, fimmtudaginn 26. júní var síðasti heili dagur flokksins Stelpur í stuði í Kaldárseli.

Dagurinn var veisludagur, og að því tilefni voru stelpurnar vaktar með ljúfu gítarspili og söng frá Ástu ráðskonu. Nú höfðu stelpurnar gist þrjár nætur í Kaldárseli, og mega því með réttu kalla sig Kaldæinga. Til að fagna þessu sérstaklega var boðið upp á spari-morgunverð, nefnilega Cocoa Puffs, við mikinn fögnuð!

Eftir að hafa tekið þátt í fánahyllingu innan dyra vegna mikils hvassviðris, var frjáls tími, og gátu stelpurnar farið í Listasmiðju, skemmt sér á hoppudýnu, verið úti, eða dundað sér inni við lestur eða vinabandagerð.

Í hádegismat var gómsætur kjúklingur og steiktar kartöflur, og tóku stelpurnar vel til matar síns. Eftir mat var stelpunum tilkynnt að nú biðu þeirra ævintýri. Ævintýrin reyndust vera með því sniði að dularfull tilkynning barst til þeirra að Bellu eldhússtúlku hefði verið rænt ásamt bananabrauðinu sem hún var búin að baka til að bjóða upp á í kaffitímanum! Leynilögreglumenn leiknir af starfsfólki litu svo inn og rannsökuðu málið, og stelpurnar fengu svo vísbendingar hvernig þær gætu fundið Bellu, og hittu ýmsar furðuverur á leiðinni til þess, m.a. tröll, skógardís og smala, og lærðu nýjan dans. Að lokum fannst Bella heil á húfi, og fögnuðu stelpurnar henni vel!

Í kaffitímanum gæddu stelpurnar sér á bananabrauði og kryddbrauði , en þar næst var boðið upp á dekurstund í „spa“ uppi í kvöldvökusal. Þar var í boði að fá naglalakk á neglur, fótanudd, fara í fótabað og fleira, og sumardrykkur með appelsínum var borinn fram á meðan. Stelpurnar virtust njóta þessa mjög vel.

Stelpurnar fóru svo í veisluföt og gerðu sig tilbúnar fyrir veislukvöldmat, sem var með öðru sniði en venjulega, en búið var að raða borðunum í matsalnum sérstaklega upp, dúka borð og stilla upp fallegum listaverkum sem stelpurnar höfðu gert, á borðin, og var þarna virkileg hátíðarstemmning. Boðið var upp á nýbakaðar Kaldárselspizzur.

Næst fór í hönd veislukvöldvaka, þar sem mikið var sungið og stelpurnar fylgdust með ýmsum skemmtiatriðum sem starfsfólkið hafði undir búið. Þær hlustuðu á hugleiðingu um það hve gott er að sýna jákvæðni og bjartsýni í lífinu. Kvöldvökunni lauk svo á myndasýningu úr flokknum meðan stelpurnar borðuðu íspinna.

Stelpurnar í flokknum hafa staðið sig frábærlega og það hefur verið sönn ánægja að kynnast þeim öllum. Við vonum að þær hafi skemmt sér vel, notið þess að vera í Kaldárseli og heyra Guðs orð, og kynnast hver annarri.

Við þökkum kærlega fyrir góða viku í Kaldárseli! Myndir úr flokknum má sjá hér á síðunni.

F. h. starfsmanna

Soffía Magnúsdóttir