Í dag hefur verið mikil Rigningarhátíð í Kaldárseli.

Dagurinn hófst með morgunmat og morgunstund eins og allir dagar hjá okkur. Við töluðum um sköpun Guðs, hvað náttúran allt í kringum okkur er falleg sköpun og hvernig við getum passað upp á sköpunina hans Guðs. Við hófumst svo handa við að útbúa listaverk af náttúrunni okkar sem við ætlum svo að halda áfram með næstu morgna.

Í hádeginu var svo boðið upp á dýrindis plokkfisk sem vakti þó litla lukku hjá stúlkunum (þær stúlkur sem borðuðu fiskinn borðuðu þó vel útilátna skammta og fannst mjög gott – svo virtist sem það væri bara annað hvort mjög gott eða mjög vont. Undirrituð borðaði t.d. allt of stóran skammt hehe) – skemmst er frá því að segja að margar fóru svangar frá borði og því ákváðu yfirvöld eldhússins að hafa vel útilátinn drekkutíma – snemma.

Eftir hádegismatinn var svo farið í hárgreiðslukeppni og boðið uppá að horfa á myndina Lego-movie á íslensku, auk þess sem boðið var upp á föndur í setustofunni og sprikl í íþróttahúsinu. Flestar horfðu á mynd og tóku þátt í hárgreiðslukeppninni samhliða.
Þegar myndinni lauk voru stúlkurnar kallaðar niður í matsal þar sem dómari af hárgreiðslubraut Iðnskólans í Hafnarfirði kom og dæmdi hver væri með flottustu greiðsluna og skar úr um hverjar voru í fyrsta, öðru og þriðja sæti – verðlauna afhending fer fram á fimmtudagskvöld (samhliða öðrum verðlauna-afhendingum og viðurkenningum).

Þegar dómarinn hafði lokið störfum sínum sátu stúlkurnar og sáu fram á að enn væri klukkutími í drekkutímann (enda klukkan rétt að verða 14) þá bárust þeim þær fréttir að einhverjir óprúttnir ræningjar hefðu brotist inn og stolið bananabrauðinu! Stelpurnar þurftu því að fara í leiðangur til að reyna að handsama þjófana og finna bananabrauðið. Á leið sinni fundu þær ýmsa aðila sem gátu hjálpað þeim við þessa för en þar voru KaldárseslTröllið góða sem hjálpaði þeim að finna smalann. Smalinn kenndi þeim að dansa egypskan strýðsdans sem gerir alla óvini máttlausa. Smalinn og Tröllið fóru svo með hópinn á fund Álfadísarinnar sem kenndi þeim vögguljóð sem svæfir alla ef það er sungið nógu hátt. Óprúttnu ræningjarnir sneru svo aftur á vettvang glæpsins og rákust þá á allan hópinn sem að sjálfsögðu dansaði þá máttlausa og söng þá í svefn og þar með var bananabrauðinu bjargað. Það var svo etið upp til agna af flottum hópnum með mikilli gleði. – Allir sneru saddir og sælir frá borðum í það skiptið.

Eftir kaffi var svo farið í risa-twister á stórri upplásinni dýnu inni í sal, málað í listasmiðjunni, einnig voru hnýtt vinabönd, spiluð spil og bækur lesnar. Nokkrir æfðu upp leikrit fyrir kvöldvökuna og aðrir mættu í hárgreiðslu á hárgreiðslustofuna í minni setustofunni.

Þegar hringt var til kvöldverðar var pylsuvagninn mættur í matsalinn en þar stóðu Bella og Anna í lúgunni og afgreiddu pylsur eftir pöntunum, salurinn var skreyttur með veifum og mikil gleði ríkti.

Eftir kvöldmatinn var farið upp á kvöldvöku og eftir kvöldvökuna var náttfatapartý sem enn stendur yfir því núna liggja allir á stórri flatsæng á gólfinu uppi í Kvöldvökusal og horfa á Harry Potter (mynd 1) og borða popp.
Þrjár skvísur treystu sér ekki til að horfa á Harry okkar Potter svo þær fóru á neðri hæðina og fengu að horfa á teiknimyndina Bóndabýlið þar og popp með – Þær sem ekki höfðu hjarta í að horfa á Harry fengu söguna í grófum dráttum sagða á rólegum stað (með áherslu á skemmtilegheitin og mikið dregið úr erfiðu pörtunum því seinna í vikunni ætlum við að fara í Harry Potter leik og þá er svo mikilvægt að þær viti um hvað málið snýst til að geta tekið þátt og haft eins gaman af. Einnig notum við myndina til að ræða um að sigra illt með góðu því það er nákvæmlega það sem Harry gerir.

Dagurinn í dag var svo skemmtilegur og svo mikið að gerast að við hreinlega gleymdum að taka myndir mestan part dags – en einhverjar myndir fljóta með inn á albúmið í kvöld.
Albúmið má sem fyrr finna hér.
Kveðja úr Rigningarhátíð Kaldársels
Anna