Jæja þá erum við loksins komin aftur í netsamband hér í Kaldárseli og getum komnið frá okkur fréttum og nýjum myndum.

Gærdagurinn var rosalega skemmtilegur. Eftir hádegismatinn (heimsins besta lasagna (eða hvernig skrifar maður lasanja? allavega það sem kötturinn Grettir borðar það er á hreinu)) fóru allir í gönguferð í upp í móbergið neðst í hlíðum Helgafells. Þar hefur skapast hefð fyrir því að Kaldárselskrakkar fari og grafi stafina sína eða nöfnin sín í mjúkt móbergið. Stúlkurnar voru nú mis-kátar með að fara í göngutúr, enda orðnar sjúklega sáttar við að chilla innandyra í vondu veðri og fannst þær ekkert þurfa á súrefni og útivist að halda. Við forningjarnir vorum hinsvegar alfarið ósammála því enda stöndum við fastar á þeirri trú að allir hafa gott af smá hreyfingu úti í fallegu umhverfinu. Stelpurnar voru nú samt flestar kátar með gönguna þegar á hólminn var komið.

Þegar þær komu svo heim og komið var að drekkutímanum stilltu allar sér upp við dyrnar inn í matsal eins og venja er áður en hleypt er inn í salinn. Þá stóð forstöðukonan fremst í röðinni og spurði stelpurnar hvort þær væru búnar að fatta að foringjarnir hér væru svolítið klikkaðir. Stelpurnar tóku illa í þá hugmynd og fannst við hreint ekkert klikkaðar.
Anna: Hvaða mánuður er núna?
Stelpur: Júlí!
Anna: Ef við tökum í aftan af júlí hvað er það þá?
Stelpur: Júl
Anna: og vitið þið hvað það þýðir á dönsku?
Stelpur: hmmm….  JÓL!!!
Þá opnaði Anna inn í matsalinn sem skreyttur var með jólaseríum, jólakúlum og jóltrjám á borðum og allir sungu „Í kvöld, jólin er að koma“. Skemmst er frá því að segja að augu stelpnanna ljómuðu og allir munnar voru galopnir af undrun. Ekki minnkaði kætin þegar í ljós kom dýrindis skúffukaka með marglitu kremi og stóru jólatré í miðjunni og heitt kakó handa öllum duglegu göngugörpunum.

Eftir drekkutímann var svo farið inn í íþróttahús í halarófu og sungið um jólsaveina einn og átta á leiðinni og í íþróttahúsinu stóð stærðarinnar jólatré sem dansað var í kringum.
Svo var slegið upp balli með jólatónlist og hoppum og skoppum.

Þegar fór að hægjast á ballinu var farið aftur í frjálsa leiki, sumir dönsuðu lengur, aðrir fóru í hárgreiðsluleiki, hnýttu vinabönd, perluðu, fóru út að smíða, spiluðu spil eða æfðu leikrit til að sýna á kvöldvökunni.

Eftir kvöldmatinn var svo farið á kvöldvöku og þar héldum við áfram að syngja jólalög og viti menn: haldið þið ekki að hann Pottaskefill hafi birst í kvöldvökusalnum hjá okkur. Hann var á ferð í sumargönguna sína upp á Helgafell þegar hann heyrði jólasöngva berast úr Kaldárseli og ákvað að kíkja við. Hann spjallaði við stelpurnar og sagði þeim frá því að þegar hann var lítill hefði hann sko verið í Kaldárseli og þá hefði hann lært að hætta að stela og hrekkja og ákveðið að verða góður. Þeir jólasveinarnir hefðu nefninlega heyrt söguna af vitringunum sem gáfu Jesú-barninu gjafir og þeim fannst það svo góð hugmynd. Þeim langaði líka að gefa Jesú gjafir en vissu ekki alveg hvar ætti að finna hann. Þegar þeir lásu sér svo til í Biblíunni höfðu þeir lesið að Jesús væri allsstaðar og að allt sem við gerum öðrum séum við að gera Jesú. Þessvegna ákváðu þeir að fara að gefa öllum börnum gjafir. Að því sögðu tók hann upp epli handa öllum stelpunum og Bibliumyndir. En þrír foringjar fengu þó kartöflur! – Stefanía því að hún stal bananabrauðinu (en það var bara leikur svo það var allt í lagi, hún fékk líka epli), Sandra því hún svaf yfir sig, og Ólöf Birna því hún gleymdi víst að gefa ungum fallegum manni sem heitir Benjamín morgunmat í Vatnaskógi í síðustu viku… hmmm…

Þessi heimsókn vakti mikla lukku og stelpurnar horfðu á eftir Pottaskefli ganga í áttina að Helgafelli.
Eftir að hann var farinn sýndu stelpurnar leikritin sín og svo var stutt hugvekja áður en allar fóru beint í háttinn, þreyttar eftir skemmtilegan dag.

Dagurinn í dag hófst svo með morgunverði, fánahyllingu og morgunstund eins og aðrir dagar hér í Kaldárseli en sérstaklega var gaman að vakna í dag því í dag eru allar stelpurnar orðnar formlega Kaldæingar! Kaldæingar eru þeir sem hafa dvalið í Kaldárseli í þrjár nætur í röð. Þetta þótti þeim afar spennandi og af þessari ástæðu verður veisludagur í dag og heimabökuð pizza í kvöldmatinn.
Einnig er stefnt á að slá einhverskonar fléttumet í dag… það verður forvitnilegt…

Myndirnar eru að mjatlast inn á netið og þær má finna undir sama link og í gær.

Með bestu kveðju
Anna