Eftir hádegisverðinn í gær lét sólin loksins sjá sig hér hjá okkur í klukkutíma eða svo og þá var um að gera að nýta veðurblíðuna og allir fóru út í leiki. Eftir kaffið var svo frjáls leikur, þá fóru fram Fáránleikar Kaldársels sem er íþróttakeppni í fáránlegum íþróttum á borð við rúsínuspýtingar og stígvélaspark og fleira. Á sama tíma var ákveðið að setja fléttumet og voru nokkrir hausar fléttaðir saman. Stundum slitnaði á milli og þurfti þá að bæta aftar í röðina en fyrir rest náðum við að flétta saman 6 hausa! – lengsta flétta sem undirrituð hefur séð og jafnframt sú litríkasta.
(myndir eru komnar inn á albúmið okkar)

Þegar kom að kvöldmat voru allir búnir að punta sig og þá var opnað inn í matsalinn sem núna hafði umbreyst í Hogwartsskóla. Þar beið flokkunarhatturinn í höndum Prófessors McGonagall’s og raðaði öllum niður á heimavistir og svo var pizzuveisla. Þetta vakti mikla lukku eins og við var að búast.

Eftir kvöldmatinn var kvöldvaka þar sem foringjarnir klæddu sig upp og sýndu ýmis leikrit stelpunum til mikillar gleði. Síðasta leikritið endaði á að einn af leikurunum mætti með stóran poka af íspinnum og gaf þeim. Meðan ísinn var borðaður fengu stelpurnar að sjá myndir úr flokknum (þær myndir sem þið hafið verið að skoða) og svo var farið í háttinn. Allir voru nokkuð snöggir í háttinn enda skvísurnar þreyttar eftir langa og fjörmikla viku.

Núna eru stelpurnar að byrja að pakka niður og ganga frá sínum hlutum, svo verður farið út að leika enda veðrið nokkuð blítt í dag þó sólin sé nú ekki að glenna sig neitt að ráði. Eftir hádegið verður svo farið í gönguferð inn í Kúadal þar sem er fallegt skógarrjóður sem gaman er að heimsækja. Þar verður farið í skemmtilega leiki og borðað nesti svo foreldrar geta búist við þreyttum en kátum stelpum þegar þeir koma að sækja kl 17 í dag.

Við starfsfólk Kaldársels þökkum fyrir frábæra viku, þetta eru stórkostlegar stelpur sem eru hér á ferð og við erum viss um að þær eiga allar framtíðina fyrir sér. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að verja með þeim þessari skemmtilegu viku og vonum að þær fari heim með góðar minningar héðan.
Með bestu kveðju
fyrir hönd Kaldársels
Anna