Kaldársel 21. júlí 2014

Í morgun komu 12 krakkar með ævintýraþrá í Kaldársel. Fyrsta sem við gerðum var að ræða regluna sem við vinnum eftir hér í Selinu: “Við tryggjum að öllum líði vel í Kaldárseli, ef einhverjum líður illa, þá hjálpumst við að við að láta honum líða betur.” Fleiri reglur voru ekki kynntar í bili. Skemmst er frá því að segja að þessari reglu hefur verið fylgt eftir af stakri príði og með eindæmum hve góð börnin eru við hvort annað.

Eftir að hafa borðað dýrindis grjónagraut með slátri fórum við í gönguferð inn í Kúadal, sem er lítill dalur hér suð-austur frá Kaldárseli. Þar fórum við í klemmuleikinn og hundabein og skemmtu sér allir vel. Þegar börnin höfðu fengið leið á leikjunum sprettu þeir duglegustu upp á Sandfell, litla fjallið sem liggur upp frá Kúadal og síðan var labbað aftur heim þar sem kaffitíminn beið okkar með súkkulaðibitakökur og smurt brauð.

Eftir kaffitímann tók við frjáls tími þar sem farið var í leiki, spilað fótboltaspil, leikið í íþróttahúsinu eða smíðað í kofunum. Krakkarnir eru góðir að leika saman og passa vel upp á hvert annað.

Í kvöldmat voru dýrindis kjötbollur með sósu og kartöflumús. Fljótlega eftir hana var kvöldvaka þar sem sungin voru lög, horft á leikrit og hlustað á sögur. Kvöldfræðslan fjallaði um Biblíuna þar sem sagt var frá þeirri góðu bók og hvernig hún skiptist niður í margar bækur.

Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi þar sem frumfluttur var nýr brandari sem krakkarnir höfðu gaman af. Eftir kvöldvökuna var háttað, pissað og burstað tennur og síðan hlustað á kvöldsögurnar. Ró var komin 23:00, enda börnin orðin þreytt eftir annasaman dag.

Myndir koma inn í fyrramálið og munu þær birtast hér

Núna ætlum við foringjarnir að fara að sofa og safna orku fyrir morgundaginn. Hann verður spennandi.

Kveðja. Arnór forstöðumaður.