19 strákar dvelja nú í Kaldárseli og njóta sín í botn.
Eitthvað er netið að vera með vesen svo ekki er mikið af myndum eða fréttum búnar að birtast þaðan en undirrituð fór í heimsókn uppeftir í dag og dvaldi með strákunum megnið af degi og fram á kvöldmat.
Ég get með glöðu geði sagt frá því að allir drengirnir sem einn sofnuðu vært á tilskyldum tíma í gær, engin heimþrá, ekkert vesen og sváfu eins og steinar í alla nótt – enda þreyttir eftir ævintýri gærdagsins. Nokkrir vöknuðu örlítið á undan hinum og læddust þeir bara upp í setustofu og fengu sér bók að lesa og leyfðu hinum að sofa – svona á þetta að vera!
Þrátt fyrir rólega nótt (og líklega kannski einmitt vegna hennar) er ekki mikið um rólegheit uppfrá að degi til því þetta er kröftugur hópur af strákum sem kann svo sannarlega að skemmta sér vel. Þeir skelltu sér í gönguferð inn í Kúadal í dag og höfðu meðferðis nesti sem þeir gæddu sér á í dalnum. Þar skoppuðu nokkrir upp á hæðina sem er þar fyrir ofan og aðrir léku sér í skóginum.
Mikið hefur verið smíðað af bátum, kofarnir rísa eins hratt og einbýlishús í nýjum hverfum borgarinnar, jafnvel hraðar, fótbolti og körfubolti eru mjög ofarlega á baugi auk þess sem fótboltaspilið er afar vinsælt.
Einn drengurinn tilkynnti foringjum það dapur í bragði í gær að hann hefði aldrei á æfinni unnið í neinni keppni og hefði svo líka tapað í fótboltaspilinu. Foringjarnir hvöttu hann til að reyna áfram það hlyti að koma að þessu og viti menn stuttu síðar kom minn maður hlaupandi fram til foringjanna, ljómandi eins og sólin, og hrópaði „Ég vann tvisvar í fótboltaspilinu! og þetta gerðist hér í Kaldárseli!“ Stórir og smáir sigrar gerast á hverjum degi í Kaldárseli og við fögnum hverjum og einum þeirra. Drengirnir fá að heyra að hér erum við öll jöfn, allir eru góðir í einhverju en enginn er góður í öllu og við erum öll fullkomin sköpun Guðs.

Við vonum að netmál séu að lagast og að á morgun birtist fleiri fréttir og myndir frá hópnum. Ég setti inn nokkrar myndir sem ég tók í kvöldmatartímanum áður en ég fór aftur í bæinn og einn foringinn sem var uppfrá í dag er að setja inn myndir úr gönguferð dagsins í þessum rituðu orðum.
Myndirnar birtast hér.

Þess má líka geta að drengirnir eru mikið að spá í að Kaldársel á 90 ára afmæli á fimmtudaginn og af því tilefni verður mikið húllumhæ uppfrá á sunnudaginn – elsku foreldrar þið getið öll átt von á að verða dregin uppeftir á sunnudaginn enda eru drengirnir að skreyta og spá og spegúlera í þessu öllu.

Með bestu kveðju
Anna Arnardóttir
stjórn Kaldársels