Nú er fjórða degi að ljúka í drengjaflokki Kaldársels þetta sumarið og drengirnir fara heim á morgun. Við höfum verið að bralla ýmislegt, kofinn stækkar og stækkar og drengirnir una sér vel á smíðaverkstæðinu. Í gær fórum við í göngu í hundraðmetrahelli með vasaljós og hjálma og borðuðum nestið sem hún Anna Elísa var búin að baka fyrir okkur, en hún er heldur betur að slá í gegn í eldhúsinu! Við höfum verið með riddarakeppni í gangi og á morgun verður krýndur King Kaldársels þar sem 3 drengir eru komnir í úrslit í æsispennandi keppni! Í dag var veisludagur, persónur úr Harry Potter mættu í heimsókn og fóru með drengina i ratleik sem endaði með því að Voldemort var skotinn niður með vatnsblöðrun. Við fengum pizzu í kvöldmatinn og nú var foringjakvöldvöku að ljúka þar sem mikið var hlegið. Seinasti dagurinn okkar saman er á morgun en þá verða drengirnir sóttir. Við munum sko seint gleyma þessum hressu drengjum sem hafa glatt Kaldársel seinustu daga.

Bestu kveðjur frá okkur, Þura

—————————————————————————-

Heil og sæl.

Það er ennþá netlaust í Kaldárseli en Þuríður nær að senda nokkrar myndir í bæinn og þær hafa verið settar inn á myndasíðuna. Fleiri fréttir koma vonandi í fyrramálið. Við minnum á að sækja drengina klukkan 16:00 á morgun, 13. júní þar sem gert er ráð fyrir smá fjölskyldusamveru í Kaldárseli. Þessar stundir eru oftast mjög skemmtilegar þar sem börnin sýna foreldrum sínum svolítið af töfrum Kaldársels og það sem þau hafa lært yfir vikuna. Ráðgert er að allir hafi verið sóttir klukkan 17:00.

Kveðja úr Kaldárseli.