Þriðji dagurinn í Kaldárseli er senn á enda. Á morgun vakna upp 26 glænýjir Kaldæingar (utan þeirra sem hafa komið áður) því opinber skilgreining er sú að allir sem gist hafa 3 nætur í Selinu eru formlega KALDÆINGAR!

Í dag var ótal margt brallað og brölt. Við heyrðum um Jesú í morgun og svo var framhald af Kaldárselsleikunum, s.s. pokahlaup, flugusöfnun og kassabílarallý. Í hádeginu var fiskur í raspi og eftir mat fórum við í hetjugöngu uppá Sandfell. Á Sandfelli var tekið til við berjatínslu en einnig rann kexið okkar út eins og heitar lummur. Kannski hafa þessir krakkar aldrei smakkað kex…en það varð allavega allt vitlaust þegar kexið var dregið upp úr bakpokanum.
Á leiðinni heim byrjaði að rigna á okkur og þá var gott að koma inn í hlýjuna og fá köku og mjólk. Eftir kaffitímann var svo farið í einkar furðulegan ratleik þar sem foringjar klæddu sig í skrýtna búninga. Næst á dagskrá var svo kvöldmaturinn, en ráðskonunni til mikillar ánægju virðast börnin vera botnlaus. Það er mjög praktískt þar sem þetta er síðasta sumarbúðarvikan í Kaldárseli og því þarf að klára sem allra mest af mat.
Eftir kvöldmat var kvöldvaka með húllumhæi og tilheyrandi, íþróttaálfurinn, Mína mús og Pocahontas komu öll í heimsókn. Heppin við! Svo lærðum við líka um fyrirgefninguna. En því næst fóru allir í náttföt og tóku sængina með upp í kvöldvökusal því það var náttfatapartý! Allir fengu popp og svo horfðum við á bíómynd um hann Jesú. Svæfingin hefur aldrei gengið jafn vel að mati starfsmanna og eru börnin nú þegar svifin inn í draumaheiminn.
Myndir má nálgast
hér.