Eins og fyrri daginn var mikil ró á göngum Kaldársels klukkan hálfníu í morgun þegar vakning var að byrja. Örfáar hræður voru á fótum og sátu makindalegar í hægindastólum og lásu og spjölluðu saman á lágum nótum. En þegar þær voru allar komnar á stjá byrjaði stuðið. Eftir fánahyllingu var morgunstundin sem gekk vel og stelpurnar fengu að heyra um sköpunina og fegurðina sem getur falist í hinu smáa. Eftir hádegi gengum við saman í níutíu metra hellinn. Inn í myrkviðum hellisins u.þ.b. níutíu metrum frá inngangi, lærðu stelpurnar nýtt erindi í uppáhalds lagi stelpnanna, "Ef ég væri fiðrildi." Vopnuð engu nema hlífðarfötum, hjálmum og vasaljósum áttum við frábærar stundir inní, ofan á og fyrir utan hellinn. Eftir að hafa snætt formkökur héldum við heim glöð í bragði og þegar heim var komið var frjáls tími sem stelpurnar nýttu í hvaðeina sem þær höfðu löngun og leyfi til að gera. Eftir kaffi fengum við heimsókn frá Sindra frá Ísland í dag sem tók upp nokkrar hreyfimyndir af stelpunum við ýmis störf og þær voru vægast sagt spenntar að fá að vera í sjónvarpinu. Einmitt þá höfðu við fengið útimálningu til að mála kofana og listrænir hæfileikar þeirra skinu í gegn og glaðværð, orka og ánægja einnig. Eftir kvöldmat var kvöldvaka sem var frábær og það var mikið sungið og við fengum að hlýða á yndislega píanótóna frá einni stelpunni.
Í kvöld var svolítið sérstakt kvöld. Það var það sem við köllum "kósýkvöld". Þá dröslumst við með sængur og kodda og popp uppí hátíðarsal, leggjumst á dýnur og horfum á mynd. Myndin Enchanted varð fyrir valinnu og ég held að allir hafi notið hennar, börn og foringjar. Svo var drifið í háttinn að mynd lokinni og hver veit nema þær fái að sofa aðeins lengur á morgun þar sem háttatíminn dróst aðeins á langinn sökum þessa auka dagskrárliðs.
Kveðjur úr Kaldárseli!