Bestu kveðjur úr Kaldárseli.
Það er við hæfi að byrja á endanum á þessum pósti því að í dag er öfugur dagur í Kaldárseli. Það þýðir að öllu var snúið á hvolf og dagurinn byrjaði á endanum. Við borðuðum kvöldkaffi klukkan níu í morgun eftir "svæfingu", kvöldmat í hádeginu og svo framvegis. Eftir kvöldkaffi var mjög snemmbúin kvöldvaka um tíu leytið og svona hélt það áfram í allan dag. Annars gekk dagurinn með eðlilegum hætti og dagskráin var spennandi. Eftir "kvöldmat" voru tveir göngumöguleikar. Annars vegar var hægt að ganga í Valaból sem er yndislegur gróðurreitur í eigu Hafnafjarðar, hins vegar var boðið uppá garpagöngu uppá Helgafell. Við foringjarnir vorum ánægð með hversu margir kusu að ganga á helgafell því 29 riðu á vaðið. Það var hreint út sagt frábært að ganga með þessum görpum uppá fjallið því þrátt fyrir minniháttar þreytu og einstaka hælsæri skemmtum við okkur feikilega á leiðinni, uppi á toppi og á niðurleiðinni. Á fjallstindinum var boðið upp á kanil-snúða og samlokur bornar fram með dýrindis eplasafa. Allir skrifuðu í gestabókina, (það er ekki oft sem maður fær að skrifa í gestabók í 340 metra hæð!) og rjóð í kinnum héldum við heim á leið. Þegar heim í Kaldársel var komið þótti þjóðráð að bleyta aðeins upp í hlutunum enda eru vatnsstríð í Kaldárseli víðþekkt. 40 orkumiklir krakkar skvettu vatni á sjálf sig, foringja og grunlausa steina og tré og skemmtu sér konunglega. Svo var komið að "hádegismat" og eftir það "morgunstund" og eftir morgunstund og cheerios og corn-flakes í "morgunmat" var boðið upp á ratleik sem gekk stórvel. Nú er hinsvegar háttatími og foringjar lesa kvöldsögur fyrir krakkana sem ánægðir, þreyttir og kannski eilítið áttavilltir liggja sælir á kodda og undir sæng eftir ánægjulegan ævintýradag.
Enn og aftur, kveðjur úr Kaldárseli!