Ævintýraflokkur í Kaldárseli er hafinn. Það er greinilegt eftir fyrsta daginn að ekki þarf að kynda sérstaklega undir ævintýraþrá krakkanna, því það hefur verið mikið ævintýri að kynnast þeim, og deila deginum með þeim. Dagurinn byrjaði á hógværan hátt, þetta unga fólk mætti galvaskt og til í slaginn upp í Kaldársel í morgun þar sem þeim var kynntur staðurinn og grundvallarreglur. Hnyttinn strákur benti á að Kaldársel ætti heldur að heita Kald-óár-sel þar sem enginn á væri til staðar á stað sem kennir sig við eina slíka. Fyrir hádegismat var aðlögunarstund þar sem verðandi Kaldæingar kynntu sér staðhætti og mögulegar skemmtunarleiðir. Það var yndislegt fyrir okkur foringjana að fylgjast með þeim, því hópur sem er sjálfum sér svo nógur, hefur sjaldan sést hér í Selinu. Eftir matinn voru allir settir í regngallan og drifnir út til að ganga að 90- og 100 metra hellunum. Þar fundum við skjól frá rokinu og rigningunni. Svo var sett Kaldárselsmet í fjölda þeirra sem fóru í gegnum allan 100 metra hellinn á einum degi, hátt í 15 krakkar. Það er ekki á færi allra skal ég segja ykkur. Þegar heim var komið fór að blása allverulega og m.a. þurfti að taka niður fánastöngina til að varna henni frá eyðileggingu. Sumir galvaskir létu sig þó hafa það að smíða kofa í rokinu þó að flestir hafi haft það notalegt inni á meðan í margskonar leikjum og dundi. Hér var bundinn fjöldinn allur af vinaböndum og listasmiðjan skreytt frá gólfi til lofts. Svo var fyrsta kvöldvakan þar sem við sungum, lékum og foringjarnir fengu að spreyta sig í leiklist. Svo var hersingin drifin niður í kvöldkaffi og svo í háttinn. En ekki fengu ungmennin að kúra lengi því rétt eftir að ró komst á liðið komu foringjarnir inn með potta og pönnur og ráku krakkana upp í sal með kodda og sængur, því náttfatapartý er fastur liður í dagskrá ævintýraflokksins og reyndar annarra flokka. Eftir popp, Harry Potter og einstaka hrotur fengu börnin loks að sofna værum blundi á sínum réttu svefnstöðum. Frábær dagur og ekkert því til fyrirstöðu að næstu dagar verði enn betri því dagskráin er stútfull af spennandi ævintýrum!
Kveðjur úr Kaldárseli