Hæ hó og jibbý jei! 17. júní var haldin hátíðlegur víðsvegar um landið í dag og Kaldársel var engin undantekning. Við höfum verið í hátíðarskapi í dag og vorum svo sannarlega heppin með veður. Börnin fengu að sofa aðeins lengur en venjulega en þegar allir voru vaknaðir var morgunmatur og eftir það hátíðarfánahylling, við tókum fánahyllinguna sérstaklega alvarlega í dag og sungum fánasönginn góða ásamt þjóðsöngnum. Svo var morgunstund þar sem mikið var sungið og sprellað. Eftir hádegismat settum við upp vatnssápu-rennibraut úti á flöt og þar sem allir voru orðnir hálfblautir leiddist sú skemmtun yfir í vatnsslag, foringjar á móti börnum. Foringjarnir höfðu eina vatnsslöngu en börnin voru með föt, potta og vatnsbrúsa til að hella yfir okkur, þar sem ekkert vatn er í Kaldánni eða Kald-ó-ánni eins og hún er kölluð núna voru baðherbergin notuð óspart og því var allt á floti að vatnsslagnum loknum. Margar hendur vinna létt verk og það tók ekki langan tíma að ganga frá og skúra allt og shæna. Kakan í kaffinu var afar skrautleg því sumarbúðir og matarlitur hafa alltaf átt vel saman. Eftir kaffi voru furðuleikar Kaldársels þar sem keppt er í ýmsum furðulegum greinum. M.a. má þar taka þátt í rúsínuspýtingum, stígvélasparki og stultuskrefakeppni. Þegar allir voru búnir að fara í sturtu og klæða sig í fínu fötin var hátíðarkvöldverður þar sem pizza var borin fram við mikinn fögnuð krakkanna. Nýtt met var sett í kvöldvökulengd því hún varði hátt á þriðja tíma. Þar var megináhersla sett á leikrit foringjanna og það er alltaf eitthvað sem bæði foringjarnir og börnin hlakka til. Svo borðuðum við ís á meðan sagðar voru sögur upp í sal eftir kvöldvöku. Þá var tvennt í boði. Annarsvegar að byrja að hátta sigog skríða upp í rúm eftir langan dag, eða að troða svefnpokunum niður í poka, setja dýnu á herðarnar og labba uppá fjall til að njóta þjóðhátíðarnæturinnar undir berum himni. Það eru afar fáir eftir í húsinu því þorrinn af krökkunum kaus síðari valkostinn. Myndavélin var að sjálfsögðu tekin með uppá fjall og því skelli ég inn myndunum inn á morgun þegar krakkarnir mæta aftur á staðinn. Æðislegur síðasti dagur! Svo er heimferð á morgun og ég minni foreldra á að sækja þarf krakkana upp í Kaldársel á milli fjögur og fimm á morgun því að engin rúta fer frá Kaldárseli niður í Lækjarskóla. Svo er gott að muna eftir því að kíkja í gegnum óskilamuni sem safnast hafa saman í vikunni því það er ekki víst að krakkarnir muni eftir öllu sem þeir höfðu með sér.
Annars bjóðum við góða nótt og skilum þjóðhátíðarkveðju héðan úr Kaldárseli.