Þá er þessum veisludegi á leikjanámskeiðinu í Kaldárseli senn að ljúka. Öll börnin eru lögst upp í rúm og eru flestir sofnaðir. Gekk svæfingin vonum framar þar sem allir stóðu sig eins og hetjur! Dagurinn í dag var heldur betur viðburðarríkur. Eftir morgunstundina og morgunmatinn fóru krakkarnir út í góða veðrið og léku sér. Búið var að koma fyrir hoppukastala sem vakti mikla lukku og skemmtu krakkarnir sér vel í honum. Einnig var drullumall í árfarveginum vinsælt ásamt virkinu og íþróttasalnum. Eftir hádegismat örkuðu börnin í kaðalhelli og var það vel heppnuð og skemmtileg ganga og komu þau svo aftur heim rétt fyrir kaffi. Eftir kaffi var boðið upp á föndur í listasmiðjunni, hoppukastala, drullumall og svo fótbolta á vellinum. Reyndust þetta vel heppnuð dagskrártilboð þar sem allir fundu sér eitthvað við hæfi. Nokkrir völdu þó rólegri dagskrá og komu sér fyrir í sófanum með power mac blöð við hönd og lásu. Í kvöldmat var svo snædd Pizza og var síðan farið á kvöldvöku þar sem mikið var skemmt sér. Sungin voru mörg lög, sýnd leikrit, farið á ljónaveiðar og fleira. Nú er komin kyrrð yfir staðinn þar sem hljótt er í öllum herbergjum. Nokkrir meira að segja farnir að hrjóta J. Vel heppnaður dagur að baki og allir spenntir fyrir lokadeginum á morgun. Ég vil minna á að ef foreldrar vilja spyrjast fyrir um börnin sín að þá er hægt að hringja í Kaldársel á meðan símatíminn er milli 11:15 – 12:00. Á öðrum tímum er full dagskrá í gangi og því ekki hægt að ganga að því vísu að einhver sé við símann. Einnig vil ég minna á að þau börn sem ekki sváfu eru velkomin aftur hingað í Kaldársel kl 9:00 í fyrramálið, ekki verður rúta frá Lækjarskóla. Fullt af myndum eru komnar inn á myndasíðuna og má sjá þær
hér
Kær kveðja úr Kaldárseli
Arnór Heiðarsson, forstöðumaður.