Þá er annar dagur flokksins liðinn. Snillingarnir farnir að lúlla, þreyttar og ánægðar eftir daginn. Það hefur mikið gengið á í dag. Eftir morgunmat, fánahyllingu og morgunstund tók ýmislegt við. Kofasmíðin hélt áfram og flestir kofanna eru farnir að taka á sig einhverja kofasæmandi mynd. Flestir komnir með veggi og einn hópurinn byrjaður að setja hæð númer tvö á kofann sinn. Þegar kofarnir eru nokkurnveginn kláraðir fá þær leyfi til að mála þá í litum að eigin vali. Sumar héldu áfram að læra nýjar vinabanda-aðferðir á meðan aðrar héldu áfram með búleikinn vinsæla sem á sér stað út í hrauni í nokkrum af fjölmörgum hella afdrepum sem þar er að finna. Eftir að hafa hámað í sig kjúklingaleggi með hrísgrjónum og grænmeti héldu stelpurnar í langa göngu uppá Sandfell sem liggur fyrir ofan Kaldársel og svo loks inn í Kúadal. Í Kúadal má finna skemmtilegan lund innanum trjágróður þar sem skemmtilegt er að fara í leiki og halda í skógarleiðangra. Gangan varði alveg fram að kaffi og þær fengu því langþráða hressingu um leið og þær komu aftur heim í Kaldársel. Eftir kaffi buðum við upp á pokahlaup og víkingaspilið Kubb sem vakti mikla lukku meðal stelpnanna. Svo var skorað á karlmennina í flokknum að spila á móti öllum stelpunum í fótbolta. Þeir töpuðu, enda eilítið undirmannaðir. Í miðjum leiknum fór sólin að skína og við upplifðum eitt heitasta síðdegi í manna minnum í Kaldárseli. Klukkan hálf sjö var svo í boði fyrir mestu fótboltaáhugamennina að horfa á leik Spánar og Portúgal á HM í fótbolta. Þá var ekki langt í kvöldmat sem fór fram samkvæmt venju. Eftir það var örlítill tími fyrir frjálsa skemmtun áður en hringt var inn til kvöldvöku. Það var mjög skemmtileg stund og leikrit stelpnanna voru enn á ný æðislega skemmtileg. Svo var bara kvöldkaffið eftir og svo upp í rúm að sofa. Þær voru fljótar að sofna enda ansi þreyttar. Ekki veitir af svefninum því dagskrá morgundagsins ekki af verri endanum.
Myndir frá degi tvö má finna á myndasíðu Kfum&K á www.kfum.is
Kveðjur úr Kaldárseli.