Þegar stelpurnar vakna á morgun, (fimmtudag) eru þær formlega orðnar Kaldæingar. Kaldæingur er sá eða sú sem gistir í Kaldárseli þrjár nætur eða lengur og hefur tekið þátt í einhverskonar starfi á vegum Kfum&K.
Dagurinn í dag hefur verið frábær eins og síðustu dagar, við vöknuðum um hálf níu leytið og snæddum morgunmat. Eftir morgunmat var fánahylling og undirritaður hefur sjaldan séð jafn flottan fánahyllingarhóp! Við syngjum svolítið gamaldags fánasöng en flestum finnst það bara skemmtilegt og hæfa hefðinni. Svo var hópnum smalað uppí sal til að hlusta á morgunsögu og syngja vakningarsöngva. Eftir morgunstund fóru stelpurnar í mismunandi áttir. Sumar fóru út að smíða, aðrar fóru út í hraun og enn aðrar kúruðu inni og héldu áfram með vinabönd eða spiluðu fótboltaspil. Hádegismaturinn var á sínum tíma og svo haldið í göngu. Að þessu sinni tóku þær með sér nagla. Við gengum nefnilega upp að rótum Helgafells þar sem hægt er að skrifa í sandsteininn með nagla eða öðru oddhvössu. Nú eru nöfn stelpnanna skrifuð í steininn og fá að dvelja þar þangað til tími og vindar má það í burtu. Heim héldum við á endanum og gæddum okkur á bakkelsi og djús. Eftir kaffi vorum við starfsfólkið búið að setja upp ratleik á svæðinu sem liggur kringum Kaldársel. Við skiptum stelpunum upp í hópa og sendum þá svo út til að leysa þrautirnar. Við höfum gaman af frumlegum og skemmtilegum svörum og ein spurningin var t.d. „Afhverju er himininn blár?“ Það er óhætt að við fengum ósk okkar uppfyllta og það var stórskemmtilegt að gefa stig. Að lokum var þó einn hópur sem stóð uppi sem sigurvegari og það borð fékk stjörnu í borðakeppninni sem borðin keppa í sín á milli. Þar spila snyrtimennska og háttprýði inn í og keppnin stuðlar að ró og næði í matartímum. Eftir kaffið kom einnig örlítið rennsli í ánna eftir langvarandi þurrka og það var mikil gleði sem ríkti meðal stelpnanna vegna þeirra frétta. Eftir kvöldmat var að sjálfsögðu kvöldvaka. Þar fá stelpurnar að sjálfsögðu að spreyta sig á leiklistinni og síðasti hópurinn stóð sig stórvel. Enginn hópur fær að sýna á kvöldvökunni á morgun því á morgun er veisludagur og þá sjáum við foringjarnir um skemmtiatriði á svokallaðri veislukvöldvöku. Það er því mikið að hlakka til. Nú er komin ró í húsið og enn ein nótt í faðmi Kaldársels bíður okkar. Vonum að hvíldin gefi okkur orku og styrk til að skemmta okkur jafnvel á morgun.
Myndir frá deginum í dag má finna á myndasíðu Kaldársels á www.kfum.is
Kveðjur úr Kaldárseli