Í dag var veisludagur og því hefur dagurinn einkennst af veislustemningu. Það þýðir reyndar líka að börnin sofa hér í Kaldárseli í kvöld og þar breytum við út af vana vikunnar. Krakkarnir komu á venjulegum tíma í morgun klukkan átta. Eftir fánahyllinguna, morgunstund og morgunmat tóku þau til við leik sem fyrr og skemmtu sér konunglega í góða veðrinu. Við fórum í foringjafótbolta þar sem foringjunum gafst tækifæri á að lumbra á krökkunum í fótbolta. Krakkarnir unnu. Það ýtti hinsvegar bara undir gleðina sem ríkir í flokknum og þar sem veðrið var svo gott, tókum við listadót út og máluðum, bjuggum til vinabönd og hlustuðum á disney tónlist. Eftir hádegismat fórum við í Valaból sem er frábær útivistarstaður í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Þar lékum við okkur saman í klettunum og á grasinu, sögðum sögur og borðuðum snúða og brauðbollur. Í miðri sögu ákvað landhelgisgæslan að hafa þyrlu æfingu fyrir ofan okkur og tveir menn sigu niður í klettunum fyrir ofan okkur og sigu svo upp og héldu sína leið. Síðan héldum við heim þar sem kökur og hoppukastali biðu okkar. Í hoppukastalnum léku krakkarnir sér með mikilli gleði og gerðu svo með því að mála og slappa af úti þangað til hringt var inn í kvöldmat. Þá var veislan mikla og börnin fengu pizzu og töluðu saman. Þetta er yndislegur hópur og það er gaman að sjá hvað hann er þéttur og góð sambönd innbyrðis. Efti mat var veislukvöldvaka þar sem foringjarnir sáu um leikritin. Það er alltaf gaman og foringjarnir skemmta sér áreiðanlega jafn vel og börnin, ef ekki betur! Núna eru börnin komin upp í rúm og foringjar inni hjá þeim að lesa kvöldsögu og koma á ró. Við vonum að þau sofi vel í nótt og hvíldin verði góð.
Kveðjur úr Kaldárseli