Jæja þá er annar góður dagur að kveldi kominn hér í Kaldárseli. Dagurinn byrjaði á ljúfum gítartónum frá Markúsi foringja og að því loknu var haldið í morgunmat. Eftir hádegið var farið í ævintýragöngu uppí Valaból, þar sem að hetjurnar í flokknum sigruðust á ótal hindrunum og stóðu sig með príði. Eftir langa göngu fengu göngugarparnir að kæla fríska fætur í ánni enda upplagt þar sem að veðurblíðan lék við okkur í dag. Dagurinn endaði síðan á því að farið var í hinn sí vinsæla hermannaleik þar sem að krakkarnir voru vaktir með "látum" eftir að ró var komin á. Þar var einnig hetjulega barist en allir komu þó heilir heim enda bara um skemmtilegan og frískandi leik að ræða. Eftir leikinn myndaðist síðan kósý stemning yfir kvöldhressingunni þar sem að búið var að slökkva öll ljós í matsalnum og kveikja á kertum á víð og dreif. Myndirnar frá þessum kyngimagnaða degi eru að hlaðast inn í þessum töluðu orðum og ættu að birtast hér á vefnum von bráðar.
Forstöðumaður þakkar fyrir sig að sinni,
Kær kveðja Arnar Ragnarsson