Nú er vatn farið að renna aftur í Kaldá við Kaldársel eftir vatnsleysi undanfarin tvö ár. Vatnsleysið hefur stafað af lágri grunnvatnsstöðu á svæðinu sem virðist nú vera að komast í eðlilegt horf. Þetta er gleðiefni þar sem áin hefur mikið aðdráttarafl og börn og ungmenni sem dvelja í Kaldárseli una sér vel við leiki og ýmislegt dundur við ána.
Nýverið var lokið við smíði á nýrri göngubrú yfir Kaldá. Björn stjórnarmaður og fleiri sjálfboðaliðar eiga heiður að smíðinni sem er til sóma og nú komast allir sem vilja á þurrum fótum yfir Kaldá. Á meðfylgjandi myndi sést nýja brúin þegar verið var að leggja lokahönd á smíði hennar. Einnig var nýlega skipt um allar loftplötur í anddyri ásamt loftplötum í föndurherbergi á annarri hæð hússins.
Sumarstarfið í Kaldárseli hófst 6. júní með flokknum "Stelpur í stuði", sem er fyrir stúlkur með ADHD. Þetta er annað árið sem hann er starfræktur. Mikil ánægja var með þennan flokk á síðasta ári og öllum sem að honum stóðu til sæmdar.
Skráning er í fullum gangi en alls verða í boði sex flokkar í Kaldárseli í sumar þ.e. "Stelpur í stuði", tveir ævintýraflokkar fyrir 11-13 ára, drengjaflokkur, stúlknaflokkur fyrir 8-10 ára og leikjanámskeið fyrir 6-9 ára.
Góð skálaleiga hefur verið í Kaldárseli nú undir vorið. Það eru aðallega leik- og grunnskólar ásamt ýmsum hópum sem taka skálann á leigu til lengri eða skemmri tíma. Nýlega áttu fulltrúar Kaldársels og fulltrúar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar með sér kynningarfund í Kaldárseli, og rætt var um skipulag umhverfis Kaldársels sem er í vinnslu.
Verið hjartanlega velkomin í Kaldársel!