Frá Tinnu Rós Steinsdóttur, forstöðukonu í 3. flokki í Kaldárseli:

Þá er næstsíðasti dagurinn okkar hér í Kaldárseli runninn upp – ótrúlegt en satt!
Ég vil minna alla foreldra á að það þarf að sækja drengina hingað uppeftir á morgun (föstudag, 24. júní ) klukkan 17:00.
Við áttum frábæran dag hérna í Selinu góða og nánasta umhverfi þess í gær. Sólin skein í heiði og við nýttum okkur það alveg til fulls. Mörgum leist ekkert alltof vel á blikuna þegar þeim var tilkynnt að það væri grjónagrautur og slátur í matinn, en eftir að þeim var sagt frá því að í grautnum væri leynibragð sem þeir ættu að finna út hvað væri var hann borðaður upp til agna og enginn diskur ónotaður í lok matartíma. Strákarnir voru ekki lengi að átta sig á þessu leynibragði, sem voru vanilludropar.
Eftir að hafa borðað seddu sína – og rúmlega það í nokkrum tilfellum – fóru allir og skiptu út stuttbuxunum fyrir síðbuxur og við fórum í hellaferð. Við byrjuðum á að fara í Kaldárselshella sem eru hérna rétt hjá. Þar höfðu foringjarnir verið búnir að fela 12 bolta í hellunum og strákarnir hlupu um með vasaljósin sín og fundu boltana. Næst héldum við í smá skógargöngu áleiðis að Íshellinum þar sem þeir fengu að fara ofan í og skoða sig um. Þeir voru misbrattir að þora ofan í, en allir fóru þeir nú samt inn og svipuðust um.
Þegar við komum heim úr gönguferðinni var tilbúin handa okkur jógúrtkaka og kryddbrauð sem var gott að gæða sér á áður en haldið var aftur út í sólina. Var þá búið að undirbúa þrautabraut sem strákarnir fóru í gegnum þar sem þeir þurftu meðal annars að labba ákveðna vegalengd með spýtu á milli hnjánna, renna sér á maganum yfir vatns- og sápubraut og draga kassabíl í gegnum keilur. Þeir stóðu sig allir með prýði og var gaman að sjá baráttuandann og metnaðinn til að ná sem bestum tíma. Úrslit þrautabrautarinnar verða svo kynnt á lokastund á morgun. Þegar allir voru búnir að spreyta sig á brautinni var svo farið í smá vatnsstríð áður en allir komu inn, hengdu fötin sín til þerris, fóru í sturtu og slöppuðu aðeins af. Í kvöldmatinn fengum við svo ævintýrapasta sem þeir áttu að giska á úr hvaða ævintýri væri. Allskonar tillögur komu upp en enginn áttaði sig þó á því að um væri að ræða Gosa-pasta. Strax eftir kvöldmat tókum við æfingaleik í brennó, en til stendur að hafa „drengir VS. foringjar“ leik í dag. Á kvöldvökunni tóku þeir sig svo til og sýndu okkur hvílíkir sönghæfileikar leynast í hópnum. Við Rakel foringi höldum því þó statt og stöðugt fram að við höfum sigrað í keppninni um hvort kynið hefði sungið hærra í laginu „Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut“ – en þeir eru ekki alveg sammála okkur með það. Rakel foringi og Siggi Jón foringi fóru svo með okkur í stutt ferðalag til Afríku þar sem við skelltum okkur á ljónaveiðar, og Ólafur, Jóhannes, Ísar, Franz, Jóel og Snær sýndu okkur svo leikrit.
Í lok kvöldvöku var Siggi Jón foringi svo með stutta hugleiðingu þar sem hann talaði um mikilvægi þess að þakka fyrir það sem við eigum og sagði þeim söguna af þakkarkörfunni. Strákarnir hlustuðu af mikilli einbeitningu og hefði mátt heyra saumnál detta allan tímann meðan Siggi Jón talaði – alveg eins og síðustu 2 kvöld.
Í lok dags ákváðum við að verðlauna þá fyrir frábæra hegðun yfir daginn og höfðum kósýkvöld með bíómynd og poppi. Það sló alveg í gegn og strákarnir allir eins og algjörir englar meðan myndin var í spilun. Myndin kláraðist rúmlega 10 og þá fóru allir og burstuðu tennur og beint uppí rúm. Þar lásu herbergisforingjarnir þeirra sögur fyrir þá og allir voru sofnaðir uppúr klukkan 23 – enda búnir á því eftir langan og skemmtilegan dag.
Í morgun var þó ekkert meira útsof en fyrri daginn og voru flestir komnir á stjá fyrir klukkan hálf 8. Þeir sem vildu fengu þó að sofa til hálf 9 og hinir þurftu að hafa sig hæga á meðan. Eftir morgunmat og fánahyllingu héldu þeir svo á morgunstund þar sem ég spjallaði aðeins við þá um bænina. Núna eru þeir á fullu í alls kyns leikjum og sprelli og við gleðjumst öll yfir því að rigningin sem hafði hótað komu sinni í dag virðist enn vera nokkrum klukkutímum í burtu, ef hún þá lætur sjá sig yfir höfuð.
Það verður a.m.k. spennandi að sjá hvað þessi veisludagur mun bjóða okkur uppá – en hvað sem það verður er ég viss um að það verður mikið um hlátur, sprell og gleði.

Nýjar myndir eru komnar inn, en þær má sjá
HÉR.

Kv. Tinna Rós