Þá er síðasti dagur sumarbúðanna runnin upp, tíminn hefur flogið frá okkur hér í Kaldárseli. Í gær var veisludagurinn haldinn. Fyrir utan þetta hefðbundna sem var vel nýtt sem áður nýttum við daginn vel, settum við upp stultuskóla, fórum í ratleik og ásadans og opnuðum skartgripagerð. Eftir kaffi var Ebbuspa opnað en þar var boðið upp á rósafótabað, fótanudd, naglalökkun og hárgreiðslu. Síðan klæddu stelpurnar sig upp og fengu veislumáltíð. Veislukvöldvakan var alveg frábærlega skemmtileg, leikrit, sögur og söngur og tóku allar stelpurnar fullan þátt. Kíkið endilega á myndirnar!
Í dag er svo heimfarardagur. Núna sitja stelpurnar saman í matsalnum, hlusta á tónlist og eru að klára síðustu listaverkin og skartgripina. Eftir hádegi ætlum við í gönguferð í 90 metra hellinn. Eftir göngu fáum við snúða og viðurkenningarskjöl og svo verða stelpurnar sóttar hingað í Kaldársel klukkan 16.
Við starfsmenn viljum þakka kærlega fyrir að fá að hafa þessar yndislegu, skemmtilegu og hæfileikaríku stelpur hjá okkur. Við eigum eftir að sakna þeirra og vonandi sjáum við þær flestar á næsta ári!