Í gær var veisludagur hér í Kaldárseli og léku krakkarnir á alls oddi. Dagskráin var ekki af verri endanum og allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Gengið var í íshelli og inní honum voru vasaljósin slökkt og sagðar æsispennandi sögur í myrkrinu sem höfðu þó allar góðan endi. Þetta var sankölluð ævintýraferð sem endaði þannig að við borðuðum dýryndis nesti í lautu skammt frá hellinum til þess að hafa nú næga orku fyrir ferðina til baka. Eftir kaffið var farið í Ásadans með tilheyrandi dýrahljóðum inni í íþróttahúsi og var spennan gýfurleg. Síðan fóru krakkarnir að hafa sig til fyrir veislukvöldið og allir fóru í sitt fínasta púss. Í veislumatin var hin sívinsæla Kaldársels pizza með ýmsum áleggstegundum sem engann svíkur en þessu var að sjálfsögu skolað niður með gosvatni af bestu gerð. Beint eftir kvöldmatinn tók svo við veislukvöldvaka þar sem að ekkert var gefið eftir. Öll vinsælustu lögin sem sungin höfðu verið í flokknum voru tekin, ótal hreyfisöngvar, leikrit, myndashow með frábærri tónlist og hugleiðing sem lét engann ósnortinn.
Þegar að kvöldvakan var öll var svo tvennt í boði. Annars vegar að halda á vit ævintýranna og gista í fallegri lautu uppi á Sandfelli undir berum himni og hinsvegar vera eftir og eiga rólega og kósý stund öll saman í kvöldvöku salnum og gista þar í svona "sleepover" stemningu. Í ævintýraferðinni voru grillaðir sykurpúðar, farið í hópleiki, sungið, trallað, skipst á bröndurum og sögum en síðast en ekki síst fengu ferðalangarnir að dást að frábæru útsýni og sólsetri sem að vakti mikla hrifningu viðstaddra.
Í dag er svo brottfarardagur og smíðasvæðið, hoppukastalinn, kassabílarnir og skotbolti í íþróttahúsinu meðal þess sem í boði var eftir morgunstund og biblíulestur. Eftir hádegið var haldið í gönguferð í hundrað metra hellinn og svo verða súkkulaðisnúðar í kaffinu. Áætlað er svo að foreldrar komi og sækji börnin klukkan 17:00 hingað uppí Kaldársel. Myndirnar af þessum tveim dögum koma svo inn von bráðar, en verið er að nota myndavélina í hundrað metra hellinum í þessum töluðu orðum.
Sem forstöðumaður þakka ég innilega vel fyrir mig og verð að segja að þessi hópur er búinn að vera hreint út sagt frábær. Þau eru búin að vera mjög stillt og prúð og algjörlega til fyrirmyndar í alla staði. Ég held að ég tali fyrir hönd alls starfsfólksins hér þegar að ég segi að við starfsfólkið höfum ekki skemmt okkur minna en krakkarnir.
Kær kveðja,
Arnar Ragnarsson