Héðan úr Kaldárseli er allt ljómandi gott að frétta. Frábær hópur sem hérna er og allir sem skemmta sér vel. Í gær á þriðjudegi borðuðu krakkarnir vel af morgunmat þegar þau komu. Síðan fórum við á morgunstund þar sem fjallað var um Guð sem góðan hirði. Eftir morgunhressingu var farið í orustu sem er skemmtilegur leikur, eins konar samblanda af paintball, lazertag og skotbolta. Gríðarlega vinsæll leikur og allir sem tóku þátt skemmtu sér gríðarlega vel. Eftir hádegismat fórum við í göngu í Valaból þar sem krakkarnir léku sér í sólinni sem þar var. Krakkarnir voru svo sóttir þegar heim var komið. Stór dagur að kveldi kominn og krakkarnir orðnir heldur þreyttir.
Í morgun mættu krakkarnir vel sofnir á nýjan leik og borðuðu morgunmat af bestu list. Á morgunstundinni var fjallað um bænina og síðan horft á bíómyndina Jónas í hvalnum. Höfðu krakkarnir flestir gaman af myndinni en vakti það athygli mína hve ólm þau voru í að komast út að leika sér og nenntu helst ekki að hanga inni og horfa á bíómynd. Greinilegt að krakkar í dag kunna vel að leika sér úti, fá grasgrænu í buxurnar og drullumalla. Eftir hádegismat var rölt yfir í Kúadal, sem er fallegur dalur hér nálægt. Þar var farið í Indíánaleik og skemmtu flestir sér vel. Þegar heim var komið var frjálst þar sem aðeins var í boði að leika sér úti þangað til krakkarnir voru sóttir. Þá var haldið áfram að drullumalla, virkin voru vinsæl og smíðasvæðið einnig.
Ég vil minna foreldra á að á morgun gista börnin. Þau börn sem gista ekki á að sækja á venjulegum tíma, kl 17:00. Því miður er ekki er í boði að sækja á öðrum tíma nema í algjörum undantekningartilfellum. Upplýsingar um hvað skal hafa með í sumarbúðirnar má finna
hér.
Myndir frá dögum tvö og þrjú má finna
hér
Kveðja Arnór, forstöðumaður.