Suðaustan rok dembist á húsunum í Kaldárseli en það hefur engin áhrif á skemmtun barnanna hér. Gærkvöldið endaði rólega og sváfu allir vært til 9 í morgun. Á morgunstund var fjallað um Biblíuna og krakkarnir lærðu að fletta í henni. Eftir morgunstund tók við frjáls tími þar sem smíðaverkstæðið var opnað og íþróttasalurinn var vinsæll. Eftir hádegismat skelltum við okkur í hellaferð, enda alltaf logn í hellunum! Farið var í íshellinn og fjárhellana. Skemmtu krakkarnir sér vel í hellunum þrátt fyrir örlitla rigningu og rok.
Þegar heim var komið borðuðu krakkarnir vel í kaffinu og síðan farið í orustu inni í íþróttahúsi. Orusta er gríðarlega skemmtilegur leikur sem hefur náð að ryðja sér rúms hér í Kaldárseli við mikla lukku. Íþróttasalnum er breytt í vígvöll og hópnum skipt í tvö lið. Síðan tekur við alsherjar orusta sem minnir ögn á Paint ball eða lazer tag. Myndir frá deginum í dag sýna ágætlega frá þessu.
Orustan lifði fram að kvöldmat og eftir hann æfðu nokkrir krakkar leikrit sem sýnt var á kvöldvökunni. Á henni var farið í leiki, sungið og haft gaman og voru krakkarnir svo svæfðir rúmlega 22.
En dagurinn var alls ekki búinn þá. Inn í herbergin ruddust foringjar með pottum og pönnum og tekin var miðnæturorusta. Allt húsið var hertekið í einn risa orustubardaga sem vakti mikla lukku hjá krökkunum. Lifði orustan fram yfir miðnætti en eftir hann skriðu sælir krakkar upp í rúm og sofnuðu værum blundi.
Myndir eru komnar inn á síðuna og má sjá þær
hér.
Kær kveðja úr Kaldárseli.
Arnór Heiðarsson, forstöðumaður.