Vikan hefur heldur betur flogið hjá hér í Kaldárseli. Gríðarmikil dagskrá hefur einkennt starfið hjá okkur síðustu daga og hefur verið mikið að gera hjá okkur.
Miðvikudagurinn byrjaði nokkuð rólega. Leiðindarveður var yfir Kaldárseli og mátti halda að haustið væri komið hjá okkur. Rigning og rok einkenndi daginn. Í tilefni þess að Harry Potter var forsýnd í vikunni hituðum við krakkana upp með því að kúra yfir mynd númer eitt um morguninn. Þegar hún var búinn fengum við okkur hádegismat og var svo farið í stutta göngu inn í Kúadal. Þar hófst undirbúningur fyrir Harry Potter ratleik sem átti að vera um kvöldið. Þegar heim var komið tók við frjáls tími og svo kaffitími. Eftir kaffi var farið í Brennó þar sem flestir tóku þátt af mikilli áfergju og gleði. Klukkan 19 var kvöldmatur og strax eftir hann var farið á kvöldvöku þar sem sungið var og trallað. Eftir kvöldvöku fengum við fullt af gestum hingað sem flestir eru reyndir starfsmenn úr öðrum sumarbúðum KFUM og KFUK. Tilgangur þessarar heimsóknar var Harry Potter ratleikur kvöldsins.
Ratleikurinn gefur börnum færi á að kynnast Harry Potter heiminum og voru foringjar búnir að klæða sig upp sem mismunandi persónur úr bókunum. Krakkarnir gengu síðan á milli stöðva hér í Kaldárseli og þurftu að vinna þrautir tengdar galdrastráknum og heiminum sem hann býr í. Vakti leikurinn mikla lukku hjá krökkunum.
Fimmtudagurinn tók við með skárra veðri. Á morgunstund var fjallað um Guð sem góðan hirði og eftir það var frjáls tími fram að hádegismat. Í göngunni var farið í 100 manna hellirinn og vakti hann furðu og áhuga flestra barnanna. Er það langur hellir sem hægt er að ganga, skríða á köflum, í gegnum og ber hann vitni um þá gríðarlegu gosvirkni sem hefur einkennt þetta svæði í gegnum tíðina.
Þegar heim var komið úr hellaferðinni tók við kókosbollugerð þar sem krakkarnir bjuggu til sínar eigin kókosbollur. Voru þær síðan borðaðar með bestu lyst ásamt volgu kryddbrauði í kaffitímanum. Eftir kaffitímann bjuggu foringjarnir til þrautabraut hér á svæðinu. Fóru krakkarnir í gegnum brautina eftir bestu getu. Endaði vaktin á einu alsherjar vatnsstríði þar sem krakkar og foringjar urðu hundblautir. Fóru allir í sturtu eftir herlegheitin og gerðu sig reiðubúna fyrir veislukvöld.
Matsalurinn hafði verið skreyttur í bak og fyrir af foringjum og borðuðu krakkarnir heimabakaða pizzu í kvöldmat. Eftir kvöldmat var haldin veislukvöldvaka sem stóð yfir í tvær klukkustundir, kláraðist rúmlega 22. Vakti hún gríðarlega lukku og skemmtu allir sér vel. Eftir hana fóru allir sáttir upp í rúm og var komin ró hér í Selinu rúmlega 23.
Myndir frá dögum 4 og 5 eru komnar inn á netið og má finna þær
hér. Við erum á leiðinni í göngu í dag upp í Valaból og er ráðgert að koma heim kl 16. Þá ætlum við að grilla sykurpúða og bíða þess að vera sótt. Öll börn á að vera búið að sækja kl 17.
Over and out
Arnór Heiðarsson, forstöðumaður.