http://www.flickr.com//photos/kfum-kfuk-island/sets/72157630528721722/show/

Ævintýraflokkur fór vel af stað í Kaldárseli á mánudaginn var.

Börnin byrjuðu á því að koma sér vel fyrir og allt gekk eins og í sögu. Þá tók við upphafsstund og smá samhristingur þar sem allir skemmtu sér vel og fengu tækifæri til að kynnast hvert öðru.

Eftir hádegi var farið í ævintýraferð í Kúadal og þar var brugðið á leik og allir voru í góðum gír.

Eftir kaffi var spilaður herkænskuleikurinn Stratego þar sem strákarnir í flokknum kepptu á móti stelpunum og spennan var í algleymingi, en svo fór að lokum að stelpurnar höfðu sigur úr býtum.

Gærdagurinn var einnig fjörugur og farið var í vatnsblöðruleik í Valaból en þegar komið var til baka í Kaldársel var það þrautabraut og vatnsstríð sem tók við. Þar sem veðrið var með eindæmum gott, ákváðum við að grípa tækifærið og bjóða krökkunum upp á það tækifæri að fara í útilegu og sofa undir berum himni og flestir voru til í það.  Gist var undir berum himni uppi á Sandfelli Þegar í útileguna var komið var brugðið á leik, sykurpúðar grillaðir, sagðir brandarar og sögur og fleira.

Dagskráin í dag verður ekki síðri, en í dag ætlum við að reyna að nýta góða veðrið sem best og útileikir á fótboltavellinum og vatnafjör verða meðal dagskrárliða og boðið verður upp á ís í íshellunum.

Vegna tæknilegra örðugleika hafa ekki komið fréttir eða myndir hér á heimasíðuna síðan flokkurinn byrjaði, og biðjumst við velvirðingar á því. Reynt verður að setja aðra frétt úr flokknum á heimasíðuna á morgun.

Við minnum á símatímann í Kaldárseli sem er alla daga flokksins milli kl. 11-12.

Kær kveðja,

Arnar Ragnarsson forstöðumaður