Í sumar verðum við með sirkusnámskeið í Kaldárseli. Foringjarnir okkar munu njóta leiðsagnar þjálfara frá einum stærsta barna- og unglingasirkus Norðurlanda SIRKUS FLIK-FLAK frá Óðinsvéum. Þar verður gengið á stultum, hjólað á einhjólum ásamt æfingum á fjölbreyttum sirkusleiktækjum.
Á leikjanámskeiðum í Kaldárseli fer fram hefðbundin sumarbúðadagskrá aðeins að deginum til. Þar er lögð áhersla á vináttu, kærleika og virðingu barnanna hvert fyrir öðru. Dagskráin er fjölbreytt m.a. leikir, útivist, stuttar ferðir um nágrennið og fræðsla um lífið og tilveruna út frá kristilegu sjónarmiði. Sérstök áhersla er á leiki og æfingar í sirkusleiktækjum s.s. einhjólum, stultum, jafnvægisleiktækjum, trúðagríni og öðrum sirkustengdum leikjum.
Rúta fyrir leikjanámskeiðin leggur upp frá Lækjarskóla í Hafnarfirði kl. 8.00 en foreldrar sækja börnin daglega í Kaldársel kl. 17.00. Sirkussýning verður í lok hvers námskeiðs þar sem börnin sýna fjölskyldum sínum hvað þau hafa lært og fleira. Sýningarnar verða á föstudeginum kl. 16:00.
Börnin þurfa ekki að hafa með sér nesti þar sem máltíðir eru innifaldar í þátttökugjaldi.