Loksins koma fréttir frá okkur í Kaldárseli en netið hefur legið niðri og við höfum því þurft að finna aðrar leiðir til að koma fréttum og myndum frá okkur.
Fyrstu þrír dagarnir eru búnir að vera fullir af ævintýrum. Veðrið hefur verið mjög köflótt, hér hefur rignt á hlið, rignt eins og hellt væri úr fötu og inn á milli skín sólin á okkur.
Stelpurnar standa sig eins og hetjur, eru hver annarri skemmtilegri og njóta sín vel. Dagarnir eru nokkuð skipulagðir hjá okkur, við byrjum alltaf á morgunmat, förum í fánahyllingu og morgunstund þar sem er spjallað og sungið. Yfir daginn eru bæði fastir liðir eins og ævintýraferðir og svo val um ýmislegt s.s. að smíða kofa, listasmiðju ofl. Í listasmiðju eru þær búnar að búa til barmmerki, trölladeig, flétta vinabönd og mála fjöldann allan af listaverkum. Ævintýraferðirnar hafa gengið frábærlega vel og taka allar stelpurnar fullan þátt. Fyrsta daginn fórum við í Álfakirkjuna sem eru mjög skemmtilegir klettar hér í nágrenninu. Áður en við lögðum af stað hlustuðum við á söguna Tár úr steini og fórum síðan að leita að steinum. Ævintýraferðin í gær var ganga í 100 metra hellinn sem hægt er að ganga í gegnum og fóru nokkrar hugrakkar alla leið, sumar meira að segja tvisvar! Ævintýraferð dagsins í dag var farin í Kúagerði þar sem var farið í skemmtilega leiki og nesti borðað. Við græddum síðan aukaævintýri í dag þar sem við fórum í fjársjóðsleit í ánni og lentum í vatnsslag við sjóræningja.
Við erum búnar að nýta umhverfið vel, stelpurnar vaða í ánni, búa til drullukökur, kíkja í hella í næsta nágrenni og veiða fiðrildi. Og viti menn hér vex hin sjaldgæfa jurt sleikjóblómið. Í gærkvöldi grilluðum við indíánabrauð yfir varðeldi og í kvöld ætlum við svo að grilla sykurpúða yfir varðeldi.
Við endum alla daga á góðri kvöldvöku og þar sem er spjallað, leikið og sungið og eru stelpurnar farnar að sýna leiklistarhæfileika sína þar.
Veðurspáin lítur vel út fyrir morgundaginn og ætlum við bæði í ævintýraferð og njóta nánasta umhverfis. Aðalmál morgundagsins er veislukvöld en það undirbúum við með því að opna hér dekursnyrtistofu þar sem stelpurnar fá fótabað, nudd og naglalakk. Síðan fáum við veislumat og veislukvöldvöku.
Myndir þessara þriggja daga eru komnar á netið. Ef netið liggur áfram niðri getum við því miður ekki sett inn fleiri fréttir og myndir fyrr en að loknum flokknum en við minnum á símatímann alla daga milli 11 og 12 ef þið viljið heyra í okkur.
Með bestu kveðjum frá sprækum stelpum og foringjum í Kaldárseli!