Í gær fóru hér hraustir hermenn af stað í ævintýragöngu í Kúadal þar sem farið var í ýmsa leiki og hlaupið upp um holt og hæðir. Mikið er hér um kraftmikla kappa sem hafa gaman af að spretta úr spori og rannsaka nýja staði. Því höfum við reynt að gefa þeim sem allra flest tækifæri til að njóta sín í náttúrunni og spretta úr spori. Þeir sem síður vilja ganga svona mikið fá þá að njóta sín í spjalli og leikjum með rólyndari foringjum Kaldársels. Með í gönguna fóru nestispokar með gómsætum heimabökuðum bollum, smurðum með osti og skinku. Þegar heim var komið á nýjan leik var vaðið í ánni, smíðað á smíðavellinum, leikið í hrauninu og útbúin þar hermannavirki.

Í kvöldmatinn voru svo dásamlegar kjúklinga-fajitas með heimagerðri sósu sem Margrét ráðskona útbjó af sinni alkunnu snilld. Svo góðar voru vefjurnar að flestir drengjanna skelltu í sig þremur vefjum!!!

Eftir matinn kom ósk hjá drengjunum um að hafa bíókvöld. Þeir höfðu verið einstaklega ljúfir allan daginn svo við ákváðum að verða við þeirri bón og útbjuggum stóra flatsæng í kvöldvökusalnum okkar, allir komu á náttfötunum með sængurnar sínar eða svefnpoka og við horfðum á Harry Potter og Viskusteininn og allir fengu popp. Þegar leið á myndina fóru nokkrir kollar að hverfa ofan í koddana sína og þegar henni var lokið voru þó nokkrir sofnaðir. Þeir sem vildu fengu því að sofa á flatsænginni alla nóttina en þeir sem frekar vildu fara niður í herbergi fóru þangað og fljótlega voru allir sofnaðir.

Þar sem menn voru þreyttir í gær var ákveðið að leyfa þeim að sofa aðeins lengur í morgun. Um klukkan níu voru þó flestir vaknaðir og komnir á ról en þeir sem þreyttastir voru sváfu til klukkan tíu. Eftir hafragrautinn og morgunkornið var farið á fánahyllingu í góða veðrinu. Við lærðum fánasönginn almennilega og fórum svo upp á morgunstund. Eftir morgunstundina fóru allir út að leika í góða veðrinu.

Í hádeginu fengum við soðinn fisk, kartöflur og rosalega góða papriku sósu sem Margrét dró fram úr uppskrifta bókinni sinni. Eftir matinn var ýmislegt í boði og máttu drengirnir velja sér verkefni. Stór hópur fór út í hraun í hermannaleik þar sem þeir smurðu drullu í andlitin, skriðu um hraunið og drukku svo te í nýrri te-stofu sem drengirnir höfðu bætt við hervirkið sitt. Nokkrir þeirra höfðu nefninlega fundið blóðberg úti í hrauni og blandað te í glösum með vatni úr ánni (hún er tandurhrein því hún rennur úr vatnsbóli Hafnarfjarðar og því ekkert að því að drekka vatnið þar úr). Þetta vakti rosalega lukku. Nokkrir fóru í kassabílarallí en síðasti hópurinn tók sig til og bjó til kökulistaverk. Þegar allir hópar höfðu leikið sér og unnið að listaverkinu í góðan tíma voru allir kallaðir saman og út braust rosalegt vatnsstríð við ánna þar sem allir fengu plastmál í hönd og léku sér að því að skvetta hver á annan (og á foringjana). Þetta var gríðarlegt stuð en þeir sem ekki vildu blotna gátu vel flúið átakasvæðið og átt örugga höfn á öðrum árbakkanum og innandyra. Þegar allir voru orðnir blautir og kaldir var haldið beina leið í heita sturtu (enda sturtudagur á miðvikudögum) og svo beint inn í matsal að borða kökulistaverkið, brauð og drekka heitt kakó.

Eftir drekkutímann var svo búið að blása upp stóran hoppukastala úti á hlaði. Allir stukku inn í kastalann og hlaupu þrautabrautirnar sem hann hefur að geyma. Mikið stuð og allir fengu rosalega útrás. Núna eru enn nokkrir að hoppa í kastalanum en aðrir komnir inn í fótboltaspil eða í íþróttir í íþróttahúsinu.

Á eftir er svo stefnan að grilla pylsur og svo grilla sykurpúða í eftirmatinn. Farið verður svo á kvöldvöku, svo ávaxtastund og beint í bælið. Enda verða piltarnir eflaust orðnir þreyttir eftir öll þessi hopp og skopp.

Þetta eru stórkostlegir drengir sem hér eru, allir sem einn og við foringjarnir erum að skemmta okkur konunglega með þeim.

Þessi mynd var tekin innan úr hoppukastalanum þegar forstöðukonan lagði á sig rúnt um þrautabrautina og skaut myndum í allar áttir á meðan hún kútveltist um svæðið. Eftir örstutta stund kom þó í ljós að líklegast væri rétt að bjarga vélinni út og þegar henni var komið í var tók það forstöðukonuna þó nokkurn tíma að veltast í gegnum brautina. Drengirnr hjálpuðu henni og felldu hana á víxl en allt var þetta í góðu gamni og mikið hlegið.

Þessi mynd var tekin innan úr hoppukastalanum þegar forstöðukonan lagði á sig rúnt um þrautabrautina og skaut myndum í allar áttir á meðan hún kútveltist um svæðið. Eftir örstutta stund kom þó í ljós að líklegast væri rétt að bjarga vélinni út og þegar henni var komið í var tók það forstöðukonuna þó nokkurn tíma að veltast í gegnum brautina. Drengirnr hjálpuðu henni og felldu hana á víxl en allt var þetta í góðu gamni og mikið hlegið.

Með bestu kveðju Anna forstöðukona og Siggi yfirforingi