Jæja kæru vinir. Nú er síðasti dagurinn runninn upp hjá kátu hermönnunum okkar hér í Kaldárseli.

Í gær fórum við í göngu upp að rótum Helgafells að skoða móbergsnámuna þar. Mestu hetjurnar í hópnum ákváðu svo að klífa Helgafellið sjálft og komust alla leið á toppinn! Nesti var með í för og voru hetjurnar algerlega frábærar. Hjalti foringi sem stýrði göngunni á toppinn sagðist aldrei hafa farið með svona skemmtilegan hóp þarna upp því drengirnir voru svo jákvæðir og kátir alla leiðina. Enginn sem kvartaði og enginn með neitt vesen. Allir bara í stuði með Guði alla leið á toppinn.

Þegar heim var komið var hoppukastalinn kominn aftur í gang og kaka og djús voru í boði fyrir þá sem vildu.

Um kvöldið var svo veislukvöld. Í flokknum hefur mikið verið spjallað um Harry Potter svo ákveðið var að halda Harry Potter veislu. Starfsstúlkurnar í flokknum tóku sig til og skreyttu veislu borð og hegdu upp skilti sem á stóð Hogwarts. Allir fengu að setja upp flokkunarhattinn (sem var þó bara stór súpuskál) og flokkunarhatturinn setti allar hetjurnar okkar í Griffindor, enda eru þeir allir svo hugrakkir. Drengirnir breyttu svo laginu við borðsönginn okkar og sungu textann okkar við Harry Potter þemalagið og verður að viðurkennast að þeir hafa aldrei sungið hærra eða betur. Dýrindis heimabakaðar pizzur birtust svo á borðunum og þegar leið á matinn kom sending af uglupósti. Allir fengu skutlu fljúgandi til sín við matarborðið og í skutlunum leyndust bréf til drengjanna frá hinum ýmsu persónum úr heimi JK Rowling. Sumir fengu bréf frá kennurum við skólann, aðrir frá nemendum og einhver fékk bréf frá Voldemort sjálfum. Þetta vakti gríðarlega lukku og eftir matinn voru nokkrir sem tóku til við að skrifa svar bréf og senda þau út um gluggann á „ugluturninum okkar“. Svo var hlaupið út að ná í þau áður en þau fykju út í veður og vind.

Mikið stuð í kvöldverðarpartý í Hogwartsskóla þegar flugpósturinn mætti á svæðið og allir fengu bréf.

Mikið stuð í kvöldverðarpartý í Hogwartsskóla þegar flugpósturinn mætti á svæðið og allir fengu bréf.

 

Eftir skemmtilegan málsverð var farið upp á kvöldvöku. Þar sýndu leiðtogar ýmsar listir, brugðu sér í gerfi ýmissa stórskrýtina karaktera og léku leikrit fyrir drengina við mikinn fögnuð. Síðasta leikritið endaði svo á að allir fengu ís. Á meðan ísinn var borðaður sagði Anna forstöðukona drengjunum sitt lítið af hverju frá ævi Jesú. Eftir það fóru svo allir að sofa, þreyttir eftir skemmtilegan dag.

Í morgun sváfu allir lengur en venjulega og voru orðnir þreyttir eftir viðburðaríka og skemmtilega viku. Eftir morgunverð var farið út á fánahyllingu og svo upp í stutta morgunstund.

Á morgunstundinni ræddum við um hvað við höfum lært í þessari viku og drengirnir ætluðu að muna þrjú atriði af öllu sem þeir lærðu og þau voru þessi

  1. Jesús elskar alla menn, alltaf, líka þá sem enginn vill tala við.
  2. Hermenn Krists gera eins og Jesús: Sýna öðrum umhyggju, vernda þá sem þurfa vernd og reyna allsstaðar að vera til fyrirmyndar.
  3. Hermenn Krists vernda jörðina sem Guð gaf okkur og alla sköpun Guðs: Jörð, menn og dýr.

Núna eru allir að pakka niður fyrir hádegismatinn og eftir hádegið verður farið út í rigninguna og gengið í 100 metra hellinn. Drengirnir eru mjög spenntir fyrir þeim helli og er sko alveg sama þó að sólin skýni ekki. Þeir ætla að borða nesti í hellinum og koma svo heim um fjögur leitið. Þá er stefnan að leyfa þeim að horfa á bíó í rólegheitum þar til foreldrar koma að sækja þá kl 17.

Þetta hefur verið dásamleg vika og við starfsmenn Kaldársels erum afsaklega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum stórkostlegu drengjum sem hér hafa verið þessa vikuna. Mikið hefur verið hlegið hér á bæ og margt brallað og mikið um góðan mat.

Takk fyrir skemmtilega viku drengir. Við vonumst til að sjá ykkur aftur næsta sumar – nú eða bara á sirkusleikjanámskeiðinu í næstu viku!
Með kærri kveðju
Anna forstöðukona, Siggi yfir-foringi, Hjalti foringi, Sandra foringi, Lena aðstoðar-foringi, Bella eldhússtúlka og Margrét matráðskona.
Sérstök kveðja kemur frá litla tveggja ára hjálpara-víkingnum sem hefur sannarlega notið þess að fá óskipta athygli frá 18 strákum alla vikuna.