Netið er búið að vera að stríða okkur síðustu dagana og þess vegna koma fréttirnar svona seint. Við biðjumst velvirðingar á því.

Það voru 17 hressir strákar sem mættu upp í Kaldársel á mánudaginn, flestir voru að koma í sumarbúðir í fyrsta skipti. Eftir að hafa komið sér fyrir og skoðað svæðið, var farið í göngu upp að Kaldárselshellum, farið í fótbolta og aðra leiki.

Á þriðjudaginn var hátíðardagskrá í tilefni 17. júní. Við grilluðum pylsur, fórum í skrúðgöngu og fengum glæsilega Kaldárselsköku. Eftir kaffitímann smíðuðu sumir kofa, aðrir bökuðu bollur, spiluðu fótbolta eða föndruðu inni í listasmiðju. Um kvöldið var svo náttfatapartý með bíó og poppi. Strákarnir voru ekki lengi að sofna eftir þennan langa og viðburðaríka dag.

Á miðvikudaginn lögðum við af stað í hellagöngu með vasaljós í hönd og nýbakaðar bollur í nesti. Það var frjálst val hvort farið var með eða ekki, en flestir voru spenntir fyrir göngunni, enda gekk hún mjög vel. Eftir göngu héldu kofaframkvæmdir áfram, listasmiðjan og íþróttahúsið voru opin og nokkrir af strákunum kenndu forstöðukonunni að tefla, enda var kominn tími til að hún lærði það. Nokkrir strákar bjuggu til leikrit sem þeir settu svo upp á kvöldvökunni.

Í dag, fimmtudag er síðasti heili dagurinn okkar í flokknum, sem þýðir að það er veisludagur. Kassabílarallíið var að klárast og nú eru stákarnir ýmist að smíða kofa (reyndar er verið að smíða rennibraut líka og eitthvað sem mig minnir að þeir hafi kallað hlaupahjól), spila eða leika í íþróttahúsinu.

Myndir koma inn á síðuna bráðlega og fleiri fréttir í fyrramálið.

Bestu kveðjur úr Kaldárseli!