Flokkurinn Stelpur í stuði hófst í Kaldárseli í dag.

Klukkan 11 mættu 18 hressar og duglegar stelpur í Kaldársel með rútu frá Hafnarfirði. Rútuferðin gekk mjög vel og notuðu stelpurnar tækifærið þar til að kynnast hver annarri.

Við komuna í Kaldársel fengu stelpurnar að vita í hvaða herbergi þær munu dvelja, og hverjar eru þeirra foringjar. Hópurinn skiptist í þrjú herbergi, þannig að í hverju herbergi dvelja sex stelpur. Hóparnir þrír fengu nöfnin Lúpínur, Fjólur og Sóleyjar.

Næst var tekið til við að föndra herbergismerkingar fyrir hvert herbergi, og stóðu stelpurnar sig glæsilega í því verkefni og töfruðu fram litrík og falleg spjöld fyrir hvert herbergi. Í hádegismat var Kaldárselsgrjónagrautur með lifrarpylsu, sem stelpurnar gerðu góð skil.

Eftir hádegi var haldið í ævintýraferð í Kaldárselshella sem eru um einn kílómetra frá Kaldárseli. Allar stelpurnar fóru með í ferðina og stóðu sig frábærlega. Margir hellar voru skoðaðir í návígi og hittu stelpurnar álfaprinsessu sem hafði falið „spýtublóm“ (sleikjóa) í laut nálægt hellunum. Stelpurnar leituðu að spýtublómunum og gæddu sér svo á þeim. Farið var í nokkra leiki í lautinni hjá Kaldárselshellum, m.a. hvísluleik og Lukku-Láka.

Eftir ævintýraferðina var frjáls tími, og margar léku sér að perlum, í fótboltaspili, í körfubolta og fleiru. Í kaffitímanum var boðið upp á ævintýrapönnukökur og smurt brauð, sem bragðaðist mjög vel.

Næst gátu stelpurnar valið á milli þess að vinna úr trölladegi í Listasmiðju Kaldársels eða að smíða í kofaborg við hlið hússins. Margar tóku þátt í hvoru tveggja, og mörg listaverk hafa nú litið dagsins ljós í Listasmiðjunni!

Sumar stelpur fóru út í hraun og gerðu sér „bú“ þar og léku sér, m.a. að kassabílum,  aðrar kusu að dunda sér inni eða lesa. Í kvöldmat voru á boðstólum dýrindis tortillas með hakki og grænmeti, og matarlystin var góð hjá stelpunum!

Mjög hvasst var allan fyrsta dag flokksins. Áætlanir um að grilla indíánabrauð yfir varðeldi úti í hrauni urðu því að engu vegna roks, en sykurpúðar voru grillaðir á grilli þess í stað, sem voru vinsælir. Nokkrar stelpur höfðu búið til svokölluð indíánabönd með laufblöðum, sem voru stórglæsileg hjá þeim.

Á kvöldvöku voru mörg lög sungin, m.a. Daginn í dag og Í bljúgri bæn, auk þess sem stelpurnar fengu fræðslu um Jesú og hvernig hann elskar þær allar nákvæmlega eins og þær eru.

Það voru margar þreyttar stúlkur sem héldu í háttinn eftir að hafa heyrt sögur og bænir frá sínum foringjum, hver í sínu herbergi.

Stúlkurnar í flokknum sýndu mikinn dugnað og góða hegðun allan daginn og voru til fyrirmyndar.

Við þökkum fyrir góðan dag í Kaldárseli!

Myndir frá fyrsta degi flokksins eru væntanlegar hér á heimasíðuna.

Fyrir hönd starfsmanna,

Soffía Magnúsdóttir