Annar dagur í Stelpum í  stuði einkenndist af fjöri og sköpunargleði.

Stelpurnar stóðu sig vel við að klæða sig, bursta tennur og borða morgunmat. Fánahylling var höfð inni í matsal að morgunverði loknum þar sem hvasst var úti og rigning. Fánasöngurinn var æfður fyrir fánahyllingar næstu daga, sem geta vonandi farið fram utandyra!

Á morgunstundinni sungu stelpurnar mörg lög, m.a. „Ég er ekki fótgönguliði“, og lærðu að fletta upp í Nýja testamentinu. Einnig heyrðu þær hugleiðingu um það hvað það er mikilvægt að sýna öðrum kærleika, og ekki að gefast upp þó móti blási.

Nælugerð var svo í boði fyrir áhugasamar, sem gekk mjög vel hjá stelpunum, og margar bjuggu til nælur fyrir vini og vinkonur og sig sjálfar. Nokkrar fóru út að smíða  og aðrar að leika sér í umhverfinu. Margs konar blóm voru tínd. Það er gaman að sjá hvað stelpurnar eru hugmyndaríkar og frumlegar við að leika sér og finna sér nýja hluti til að hafa fyrir stafni. Einnig var í boði að leika sér að búningadóti Kaldársels, sem nokkrar gerðu.

Í hádegisverð var pasta og nýbakaðar Kaldárselsbollur, sem stelpurnar borðuðu vel af. Þrátt fyrir rigningu og rok, var haldið í ævintýraferð í réttir í nágrenni Kaldársels eftir hádegi. Þar var farið í „réttarleik“ sem vakti mikla kátínu, og fengu stelpurnar verðlaun að honum loknum fyrir góða frammistöðu. Vegna slæms veðurs var fljótlega farið inn í skotbolta og hvísluleik.

Eftir kaffitíma var Listasmiðjan opnuð á ný, og máluðu nokkrar stelpur krukkur og héldu nælugerð áfram. Nokkrar fóru í hópdans í kvöldvökusalnum með Hrafnhildi aðstoðarforingja og skemmtu sér vel og sungu með.

Næst var komið að „Sumarpartýi“, þar sem pylsur  og sumar-ananas-drykkur voru á boðstólum í sumarlega skreyttum matsalnum, og við áttum þar skemmtilega stund.

Haldið var á kvöldvöku strax að kvöldmat loknum, en hún var með styttra sniði þennan daginn. Stelpurnar hlustuðu á Jónu foringja flytja hugvekju um Miskunnsama Samverjann og mikilvægi þess að sýna öðrum hjálpsemi.

Náttfatakósý-bíókvöld var svo næst á dagskrá. Dýnur voru lagðar í kvöldvökusalnum fyrir alla stelpurnar, sem klæddu sig í náttföt og höfðu sængurnar sínar meðferðis. Horft var á kvikmyndina Frozen og poppkorn var borðað með.

Að loknu kvikmyndaáhorfi var háttatími genginn í garð, og stelpurnar voru flestar nokkuð fljótar að sofna.

Við þökkum fyrir góðan dag og hlökkum til meira fjörs á morgun!

F. h. starfsmanna,

Soffía Magnúsdóttir