Ævintýrin hjá stelpunum í Kaldárseli héldu áfram á þriðja degi flokksins!

Kaldársel fagnaði 89 ára afmæli sínu þennan dag, 25. júní.

Eftir að hafa gætt sér á morgunverði var haldið á fánahyllingu, sem fram fór utandyra í fyrsta skipti í flokknum. Stelpurnar tóku vel undir í fánasöngnum og fóru svo strax á morgunstund, þar sem þær fræddust um þakklæti og hvað það er margt sem við getum þakkað fyrir. Söngvar voru sungnir og stelpurnar gerðu svolitla morgunleikfimi til að hressa sig við fyrir daginn.

Listrænir hæfileikar stelpnanna í flokknum leyna sér ekki, því þær hafa búið stórkostleg listaverk til í Listasmiðjunni, bæði myndir, glerverk  og armbönd.  Fótboltaspilið er vinsælt, og vinabandagerð í félagsskap foringjanna líka.

Í hádegismat var steiktur fiskur með raspi, og kartöflur, sem borðað var vel af.

Ævintýraferð dagsins var svo farin í helli sem kallast „100 metra hellirinn“ og er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Kaldárseli. Áður en haldið var af stað undir dyggri stjórn Áslaugar foringja, klæddu stelpurnar sínar í hlý föt, settu á sig hjálma og fengu brauð í nesti í bakpokana sína, hver með því áleggi sem hún kaus.

Í göngunni voru stelpurnar mjög duglegar og þrautseigar, og margar nutu fallega útsýnisins á leiðinni. Þegar komið var að hellinum aðstoðuðu Jóna og Hrafnildur foringjar nokkrar stelpur í einu inn í hellinn í skoðunarferð.  Það var skemmtilegt að fylgjast með því hvað stelpurnar voru áræðnar og hugrakkar við að fara inn í hellinn, vopnaðar vasaljósum!

Þegar heim var komið, var tekið á móti stelpunum með nýbakaðri afmælistertu í tilefni af afmæli Kaldársels, sem Ásta og Bella sem starfa í eldhúsinu þessa vikuna, höfðu skreytt fagurlega með allavega lituðu smjörkremi, með mynd af skálanum í Kaldárseli. Kakan sló í gegn og var mjög bragðgóð.

Eftir kaffi var bökunarsmiðja í boði, þar sem nokkrar duglegar stelpur bjuggu til flottar kókoskúlur fyrir allan hópinn. Listasmiðjan var einnig opin, og meðal annars voru búin til gullfalleg perluarmbönd af þessum hæfileikaríku stúlkum! Nokkrar stelpur æfðu leikrit til að flytja á kvöldvöku kvöldsins.

Ný hoppudýna var svo sett upp, sem hægt er að skemmta sér á með alls konar hoppum og leikjum.

Í kvöldmatinn var ljúffengt lasagna, en eftir mat var frjáls tími hjá stelpunum. Kvöldvaka kvöldsins einkenndist svo af skemmtilegum leikritum sem stelpurnar bjuggu til og fluttu sjálfar, við mikla kátínu. Eins og venjulega voru nokkur lög sungin og svo lauk kvöldinu með hugvekju frá Bellu eldhússtúlku.

Við þökkkum fyrir góðan dag í Kaldárseli! Myndir úr flokknum má sjá hér á heimasíðunni.

Með kærri kveðju,

F.h. starfsmanna

Soffía Magnúsdóttir