Í gær var fyrsti dagurinn hjá stelpunum í 3. flokk í Kaldárseli. 34 stelpur mættu röskar upp í Selið í gær, allar spenntar og kátar yfir væntanlegri viku og tilbúnar í að eignast nýja vini. Undirrituð hefur unnið marga sumarbúðaflokka en sjaldan séð svona stóran hóp stelpna sem allar eru svo innilega á því að hér skuli vera gaman og allir að vera vinir. Afar lítið hefur verið um árekstra og dagurinn í raun einn sá besti „fyrsti dagur“ sem ég hef átt í Kaldárselinu mínu. Örlítla spennu vakti að tveir 9 ára drengir starfsmanna eru á svæðinu en um leið og uppgötvaðist að þeir eru dásemdar drengir hætti það að vera eitthvað til að spá í (enda gista þeir að sjálfsögðu ekki í herbergjum með stelpunum) og þá voru allir kátir og til í að vera vinir. Þetta eru greinlega frábærar stelpur og við starfsstúlkurnar erum allar afar spenntar fyrir vikunni.

Í gær var farið í stutta hellaferð í Kaldárselshella – allar velklæddar með vasaljós að vopni og smá kex í nesti. Seinni partinn var svo farið út að smíða, leikið í hrauninu, föndrað í listasmiðjunni, leikið í íþróttahúsinu, spilað og vinabönd hnýtt í setustofunum.
Eftir góðan kvöldverð (Fajitast með hakki og grænmeti) var stórskemmtileg kvöldvaka þar sem við sungum mikið, lékum hermileiki og tvö borð í matsalnum sameinuðust um að leika leikritið „Stækkunarvélin“ fyrir hópinn.
Eftir mikil hlátrasköll og fjör róuðum við okkur niður, sungum rólegri sálma og fræddumst um Biblíuna.

Í lok dags fengu allir sér ávexti og hlustuðu á fyrsta kafla úr bókinni „Kamilla og þjófurinn“ – sem er ein af uppáhalds bókum undirritaðrar 😉

Stelpurnar voru flestar snöggar að sofna, enda þreyttar eftir daginn – þær sem voru aðeins lengur að sofna voru allar rólegar í sínum rúmum, enginn grátur eða stór heimþrártilfelli. Tvær skvísur voru með smá söknuð í hjarta en eftir stutt spjall og knús voru aftur komin bros á varir og þær tilbúnar að fara að sofa – það eru engar ýkjur að ég hef sjaldan haft eins flottan og kátan hóp í sumarbúðunum.

Myndir eru væntanlegar á netið seinna í dag.
En núna eru stelpurnar búnar að ljúka morgunverði og eru að snyrta til í herbergjunum sínum áður en ferið verður á morgunstund. Í dag er svo stefnt á ævintýri og skemmtanir innan húss sökum veðurs og er dagskráin þétt skipuð (heyrst hefur að hið góðláta Kaldársels-Tröll ætli að kíkja við í dag og fara með stelpunum á vit ævintýranna).

Með bestu kveðju og mikilli gleði í hjarta
Anna Arnardóttir
forstöðukona