Kaldársel 22. júlí 2014.

Börnin voru ræst að nafninu til klukkan 8:30 í morgun, þó flestir hafi nú verið vaknaðir eitthvað fyrir það. Morgunmaturinn var hefðbundinn klukkan 09:00 þar sem boðið var upp á hágæða Cherrios, kornflex og meððí.

Í morgunstund var fjallað um þau tákn sem Guð veitir okkur og hve mikilvægur kærleikurinn er. Þau hlustuðu áhugasöm á og tóku vel undir í fræðslunni, gaman að tala við þau. Fyrir hádegismat var nýtt góða veðrið og farið út að leika sér. Vatnsrennibraut og lítil sundlaug voru sett upp og fengu krakkarnir að bleyta sig aðeins.

Í hádegismat var steiktur fiskur og mmm…. hvað hann var góður. Krakkarnir borðuðu vel og sjaldan sem við sjáum jafn lítið af afgangi. Góða veðrið var áfram notað í þaula og farið í langa gönguferð upp í Valaból. Þar var farið í ýmsa leiki og hafa foringjarnir orð á því hve hópurinn er meðfærilegur – tekur vel í að fara í hina ýmsu leiki og almennt jákvæðir krakkar.

Kaffið var borðað í Valabóli, snúðar og brauð, og komu krakkarnir síðan heim um 16:30. Frjáls tími tók við og voru margir sem nýttu síðustu sólargeislana og léku sér úti.

Eitt er það sem við söknum gríðarlega mikið hér í Kaldárseli, en það er Kaldáin sjálf. Hún hefur ekkert verið í sumar og óttumst við að hún sé endanlega horfin. Vonandi er ekki svo því hún setur svo sannarlega svip sinn á staðinn þegar hún lætur sjá sig.

Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og eftir kvöldmat voru tvær stúlkur sem tóku sig saman og æfðu leikrit fyrir kvöldvökuna. Kvöldvakan var svo klukkan 20:00 og var þar sungið hátt og vel, horft á leikrit, hlustað á framhaldssögu, skroppið á ljónaveiðar til Afríku og hlustað á hugleiðingu.

Með kvöldkaffinu var svo sögð skrýtla sem lagðist vel í hópinn og núna eru foringjarnir að lesa fyrir börnin og syngja þau í svefninn.

Flokkurinn gengur vel. Börnin eru í einu orði sagt æðisleg. Þau passa upp á hvert annað og þeir litlu árekstrar sem verða eru leystir með vináttu og vinsemd að leiðarljósi. Á kvöldvökunni fundum við fyrir því að örlítil þreyta er farin að segja til sín og gerum við ráð fyrir því að þau sofni fljótt í kvöld og jafnvel sofi alveg til 8:30 í fyrramálið.

Myndirnar frá degi eitt komu inn um hádegið og munu myndir frá degi tvö koma inn á svipuðum tíma á morgun, þær má finna hér.

Góða nótt 🙂

Arnór forstöðumaður.