Kaldársel 23. júlí 2014.

Krakkarnir voru vaktir kl. 08:30 í morgun, þá sváfu allir vært ennþá og þurfti ljúft gítarspilið til að vekja þau. Dagurinn var þó eki hefðbundinn því ákveðið var að hafa bandarískan dag og voru því amerískar pönnukökur í matinn, við mikla gleði.

Á morgunstundinni var fjallað um fyrirgefninguna og mikilvægi hennar. Eftir morgunstund var frjáls tími fram að hádegismat þar sem boðið var upp á dýrindis Lasagne í matinn. Eftir hádegismat var farið í göngu í Kaldárselshella sem eru margir litlir hellar sem hægt er að fara inn í hér rétt við veginn að Kaldárseli. Eyddum við rúmri klukkustund þar áður en við fórum til baka. Veðrið var ágætt á meðan við vorum í göngunni en þó svolítið hvasst.

Í kaffinu var boðið upp á dýrindis súkkulaðiköku en hún var skreytt í anda þema dagsins, með bandaríska fánanum. Ekki skemmdi að kakan var gríðarlega góð á bragðið, svo sannarlega gott eldhússtarfsfólk sem við höfum hér í Selinu.

Eftir kaffið var listasmiðjan tekin upp á næsta stig og boðið upp á að mála myndir með vatnsmálningu. Einnig er vinsælt að perla og búa til hinar ýmsu myndir úr perlum.

Í kvöldmat voru pylsur og eftir kvöldmatinn var farið í gönguferð og var haldin kvöldvaka í stórum helli sem er hér nálægt. Hellirinn var lýstur upp með kertaljósum og var það reglulega vel heppnað, ekki oft sem kvöldvaka er haldin í helli hér í Kaldárseli.

Þegar heim var komið úr hellaferðinni var boðið upp á bíósýningu og popp og því var svæfingin aðeins seinna en venjulega. Ró var komin á rétt eftir 23:00 og voru krakkarnir orðnir vel þreyttir þá og sofnuðu allir fljótlega.

Óhætt að segja að dagurinn hafi gengið í heildina séð vel, ævintýrin gerast hér í Kaldárseli. Nýjar myndir koma inn á hverjum degi og má finna þær hér.

Við skilum góðum kveðjum heim og ég minni á að foreldrar sækja börnin hingað í Kaldársel milli 16:30 og 17:00 á föstudaginn.

Kveðja. Arnór, forstöðumaður.