Kaldársel 24. júlí 2014

Upp er runninn veisludagur. Ákaflega ringingarlegur og með dass af vindi, en við látum það ekkert á okkur fá. Við vöknuðum í morgun kl 8:30 og fengum okkur morgunmat og fórum á morgunstund þar sem fjallað var um mismunandi liti kristinnar trúar og rifjað upp boðorðin 10 og kærleiksboðorðið.

Eftir það var frjáls tími þar sem listasmiðjan var vinsæl og í hádegismat var boðið upp á kjúkling sem börnin borðuðu af bestu lyst. Eftir hádegismat kappklæddum við okkur í regnföt og lögðum af stað í göngu. Þegar við vorum rétt lögð af stað dró frá sólu og það kom fínasta veður. Við fórum að helli sem við köllum íshelli og þaðan gengum við að Álfakirkju þar sem krakkarnir gátu klifrað í klettum. Við komum heim úr göngunni rétt fyrir 15:00 og fengum okkur kryddbrauð og bananabrauð í kaffitímanum. Eftir kaffi fórum við í vinsælan leik sem nefnist “battle” sem er einskonar samblanda af skotbolta og lazertag. Skemmtu krakkarnir sér vel og eftir það fóru allir í sturtu og skiptu um föt fyrir veislukvöldið.

Í kvöldmat var boðið upp á dýrindis Pizzur sem krakkarnir borðuðu vel af. Eftir kvöldmat kom veislukvöldvaka þar sem foringjarnir tóku mörg leikrit, mikið var sungið og framhaldssagan kláraðist. Allir skemmtu sér konunglega og kláraðist kvöldvakan rúmlega 21:00. Í kjölfarið var kvöldkaffið klárað og svo var farið að hátta, pissa og bursta tennur. Ró var komin á um 22:30.

 

Kaldársel 25. júlí 2014

Þá er komið að síðasta deginum okkar hér. Krakkarnir sváfu aðeins lengur í morgun og var klukkan að nálgast 09:00 þegar við vöktum þau. Morgunmatur var borðaður og farið upp í morgunstund þar sem rifjuð var upp umræðan yfir vikuna. Núna eru krakkarnir að pakka niður. Eftir hádegismat munum við fara í langa gönguferð inn í 100 metra helli. Við gerum ráð fyrir að koma til baka í Kaldársel á milli 16:00 og 16:30 þannig að best er að sækja börnin klukkan 16:30 og eigi síðar en 17:00.

Síðasti myndapakkinn kemur á eftir og eru þær settar inn hér. Við munum hafa óskilamunina uppivið þegar foreldrar koma hér á eftir en það sem ekki gengur út mun fara á aðalskrifstofu KFUM og KFUK að Holtavegi 28.

Einnig langar mig til að benda á það að í september fer af stað yngrideildastarf KFUM og KFUK víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og úti á landi. Nánari upplýsingar um það koma inn á heimasíðuna okkar www.kfum.is seinni partinn í ágúst. Endilega finnið starfið í ykkar hverfi og fáið börnin til að taka þátt.

Ég þakka kærlega fyrir mig. Þessi vika hefur verið skemmtileg og frábær hópur af börnum sem hefur verið hér.

Kveðja. Arnór forstöðumaður.