Loksins er netið komið í lag hér í Kaldárseli og þá er heldur betur kominn tími á smá fréttir héðan úr 2. flokki. Í flokknum eru 19 hressir, kraftmiklir og skemmtilegir strákar á aldrinum 8-11 ára. Einhverjir komu með vini sínum en flestir þekktu engan í hópnum þegar þeir komu á mánudaginn. Hér hefur ýmislegt verið brallað síðustu daga. Við höfum fengið alveg yndislegt veður svo við höfum mikið verið úti. Þónokkrir strákar hafa verið ansi duglegir að smíða og er mjög vinsælt að smíða skip til að láta sigla á Kaldá. Farið er með skipið ofarlega á ánni og svo er einhver sem grípur það áður en það fer undir brúnna. Stundum hafa skipin komist lengra en ætlað var og þá er ekkert annað í stöðunni en að smíða nýtt skip og endurtaka leikinn. Margir hafa smíðað sér þónokkur skip og eru sífellt að bæta þau með nýjum útfærslum. Það hefur einnig verið vinsælt að vaða í ánni og leika þar með potta og önnur búsáhöld. Þá hefur hópurinn farið í tvær göngur í góða veðrinu, farið í leiki bæði inni og úti og dundað við ýmislegt annað. Hér er alltaf eitthvað að gera fyrir alla.
Á hverjum morgni eftir morgunmat er fánahylling og síðan samvera þar sem sungin eru lög, undirrituð flytur hugleiðingu og umræða skapast um efni hennar. Strákarnir hafa verið mjög duglegir að syngja og taka þátt í umræðum. Á kvöldin eru einnig kvöldvökur sem eru með svipuðu sniði.
Í gærkvöldi var síðan náttfatapartý. Foringjar tóku niður allar klukkur til að láta strákana halda að klukkan væri meira en hún var. Við borðuðum kvöldmat í fyrra fallinu og héldum síðan kvöldvöku. Eftir kvöldvöku um kl. 20:30 héldu strákarnir að klukkan væri að verða 22 svo þeir fóru í náttföt og gerðu sig klára til að fara að sofa. Þegar allir voru komnir upp í rúm og ljósin slökkt komu foringjarnir inn og kölluðu NÁTTFATAPARTÝ. Það er vægt til orða tekið þegar sagt er að gleði og spenningur hafi verið í mannskapnum. Allir tóku sængur/svefnpoka og kodda í salinn og lögðust í eina stóra flatsæng á gólfinu. Síðan var bíómynd varpað á vegginn og ráðskonan kom með popp. Náttfatapartýið heppnaðist ótrúlega vel og allir strákarnir voru til fyrirmyndar.
Það er ótrúlega gaman að sjá hvernig vináttuböndin hafa að myndast og meðfylgjandi mynd lýsir stemmingunni hér meira en mörg orð geta sagt. Á myndinni eru aðeins sex strákar af 19 en ég get fullyrt það að gleði, ánægja, vinátta og samvinna er eitthvað sem einkennir allan hópinn. Hér líður öllum vel og enginn hefur fengið heimþrá. Tel ég líklegt að vinátta og góð samvinna milli strákanna eigi þar mikinn þátt. Fleiri myndir eru væntanlegar vonandi í dag.
Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að vera til fyrirmyndar á næturna. Þeir hafa allir verið mjög duglegir að fara að sofa á kvöldin og allir hafa þeir sofið eins og steinar báðar næturnar sem er kannski ekki skrítið því þreytan hefur verið mikil eftir ævintýrin sem gerast á daginn.
Það má með sanni segja að starfsmenn í 2. flokki eru virkilega stoltir af þessum flotta hópi sem dvelur nú í Kaldárseli.
Ísabella (Bella)
forstöðukona í 2. flokki