20150625_100849

Þá er síðasti dagurinn hjá 2. flokki hér í Kaldárseli runninn upp og flestir strákanna eru leiðir að þurfa að fara heim í dag. Vikan hefur verið ævintýri líkast og gleðin og hamingjan sem skín úr andlitum þessara frábæru drengja er vitnisburður um að samveran hér verður minning í hjarta þeirra um ókomin ár. Þá hafa þeir allir sagt að þeir ætli að koma aftur næsta sumar.

Við höfum verið afar heppin með veður alla vikuna. Sólin hefur glatt okkur flesta dagana, vindur hefur verið stilltur og ekki einn einasti rigningardropi hefur komið úr lofti. Í gær fimmtudag fór hópurinn í langa göngu að 100 metra helli. Eins og nafnið gefur til kynna er hellirinn um 100 metra langur þar sem farið er inn í hann á einum endanum og komið út hinumegin. Hellirinn er langur og dimmur og því þurftu allir að vera með vasaljós og hjálma til að vernda höfuð frá því að rekast utan í hraunið. Strákarnir stóðu sig allir vel og fannst þetta afar spennandi.

Í gær var einnig 90 ára afmæli Kaldársels. Í tilefni þessa var veislukvöld hjá okkur. Allir fóru í sturtu og betri fötin sín, matsalurinn var skreyttur með ljósum, luktum og öðru skrauti og ráðskonan bakaði pizzur í kvöldmat. Í eftirrétt var síðan girnileg afmæliskaka þegar afmælissöngur hafði verið sunginn. Skemmtiatriði kvöldvöku voru í höndum foringja, forstöðukonu og ráðskonu og vöktu þau mikla lukku.

Myndir hafa verið að koma inn hægt og rólega. En þar sem nettengingin hér er ekki sú allra besta tekur töluverðan tíma að hlaða þeim inn og því er von á fleiri myndum í dag og jafnvel á morgun.

Með Guðs kærleik og þakklæti þakka starfsmenn Kaldársels í 2. flokki fyrir frábæra viku með dásamlegum drengjum. Með góðar minningar í hjörtum hlakkar okkur til að sjá sem flesta aftur næsta sumar.

 

Ísabella (Bella)

forstöðukona 2. flokki