Þriðjudaginn 4. mars kl. 13:00 hefjast skráningar á leikjanámskeið og í dvalarflokka í Kaldárseli.

Leikjanámskeiðin í Kaldárseli eru fyrir börn á aldrinum 6-9 ára og 7-11 ára.

Börnin fá morgunmat, hádegismat og nónhressingu á staðnum þar sem að kokkurinn okkar framreiðir hollan og góðan heimilismat. Maturinn er innifalinn í verðinu.

Rúta fyrir leikjanámskeiðin leggur af stað frá Holtavegi 28 í Reykjavík kl. 8:00 og stoppar  í Lækarskóla í Hafnarfirði kl. 8:20. Foreldrar sækja svo börnin í Kaldársel kl. 17:00. Næst síðasta daginn fá börnin að gista í Kaldárseli og er þetta því frábær sumarbúðaaðlögun. Síðasta daginn er því engin rúta og þann dag eru börnin sótt kl 15:00.

Dvalarflokkarnir í Kaldárseli eru fyrir börn 8-11 ára og 9-12 ára þar sem gist er fjórar nætur í Kaldárseli.

Rúta leggur af stað frá Holtavegi 28 í Reykjavík kl. 10:00 og stoppar í Lækjarskóla í Hafnarfirði kl. 10:20. Foreldrar sækja svo börnin á heimfarardegi kl. 15:00.

Í dvalarflokkum fá börnin að njóta alls hins besta sem að staðurinn hefur upp á að bjóða með kvöldvökum, leikjum og útiveru í ævintýralegu umhverfi.

Þess má geta að fyrsti dvalarflokkur í Kaldárseli var árið 1925 og á því Kaldársel 100 ára afmæli í ár. Því verður fagnað með veislu í Kaldárseli fimmtudaginn 29. maí (Uppstigningardag). Fylgist með á FB síðunni Kaldársel í 100 ár https://www.facebook.com/profile.php?id=61568129356233