Afmælisflokkurinn langþráði er hafinn!

Fyrsti dagurinn okkar hér var heldur viðburðarríkur. Hópur af 25 krökkum mættu kát upp í Selið í morgun og við byrjuðum á því að kynnast staðnum. Það var skipt niður í herbergi, nafnaleikir voru spilaðir og síðan var haldið í hádegismat. Í hádegismat var hrært skyr með berjum og vanillu, og síðan mjólkurlausir kostir fyrir þá sem þurfa.

Dagurinn einkenndist af mjög sérstöku veðri, þegar haldið var í gönguferð kom skyndilega hellirigning. Tími fyrir pollagallana! Sem betur fer fórum við í Kaldárselshellana, og þar var hægt að finna skjól fyrir rigningunni. Í göngunni fundu krakkarnir lítinn fjársjóð með vísbendingu um faldan fjársjóð Kaldársels. Vindar ævintýra blása svo sannarlega hér í Selinu.

Eftir gönguna var kaffitími þar sem boðið var upp á brauð með kæfu og eggjabrauð. Að sjálfsögðu var líka gómsæt eplakaka. Þegar kaffinu var lokið var veðrið búið að snúast við gjörsamlega og það var komin svo mikil sól að kalla mætti sumarbúðirnar Costa del Kaldársel. Þá fóru krakkarnir út að vaða í ánni, gerðu vinabönd, eða lögðust bara í sólbað!

Það var útitími alveg þangað til að kvöldmaturinn kom og þar var boðið upp á sanna íslenska kjötsúpu. Eftir kvöldmat tók við víðfræga hliðhlaup Kaldársels og þar unnu þau Karl með tímann 5 mín og 59 sek, og Bjartey með tímann 7 mín og 36 sek, sem eru sitthvort nýtt Kaldárselsmet! Við erum með kvöldvöku flest kvöld hér í Kaldárseli þar sem krakkarnir sýna leikrit. Í dag sýndu drengirnir úr Fjallaseli og stúlkurnar úr Hólaseli leikrit, það var sungið og farið með hugvekju. Síðan var boðið upp á ávexti í kvöldkaffi áður en það var farið í háttinn.

Það getur tekið á að gista að heiman, sérstaklega fyrir þá sem gera það í fyrsta skipti, en það er alltaf svo ánægjulegt að sjá krakkana finna þetta sjálfstæði í sér og að sigrast á þessari áskorun.

Þar til á morgun…

Guðni Nathan forstöðumaður

Myndir frá fyrsta deginum má sjá hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720327239086/