Þá er það veisludagurinn okkar. Hjá flestum hófst dagurinn í tjaldi en þá þurfti að pakka öllu saman áður en það var gengið heim í Kaldársel. Það var morgunmatur í selinu, fánahylling og morgunstund eins og venja er á. Við slöppuðum af og vorum með frjálst eftir morgunstundina. Það fannst líka látinn þröstur sem var kvaddur með tilheyrandi jarðarför.
Í hádegismat var hakk og spagettí með hvítlauksbrauði. Síðan kom Mr. Beast í heimsókn og var með sína Beast leiki þar sem Mía vann. Eftir það var gengið í kúadal sem er skógræktarsvæðið næst við Kaldársel. Þar er hægt að byggja virki, klifra upp á sandfell, og spila ýmsa leiki. Eftir gönguna var kaffitími og það var heimabökuð gulrótakaka.
Sólin ákvað að láta sjá sig eftir kaffið, og við nýttum tækifærið til að vera úti. Á veisludegi er sérstakur veislukvöldmatur og náttúrulega veislukvöldvaka. Þessa vikuna sem við erum að halda upp á 100 ára afmælið okkar er eins gott að þessir föstu liðir verði veglegir og flottir. Krakkarnir fóru í betri fötin, það var hárgreiðsla og andlitsmálun á pallinum í góða veðrinu. Og síðan var kvöldmaturinn, pizzur og djús. Það var sérstaklega skreytt allt saman, og síðan var ein alveg rosalegasta kvöldvaka seinni tíma!
Á morgun er heimfaradagur og þá minnum við á að börnin eru sótt upp í Kaldársel kl 15.
Guðni Nathan forstöðumaður
Myndir frá flokkinum má sjá hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720327239086/