Daginn í dag gerði Drottinn Guð! Ég er sjaldan ósammála Páli postula, en í þessari viku get ég ekki sagt að dagarnir séu vondir. Hins vegar má nýta hverja stund. Í dag voru Kaldárselsleikar!!! Keppt var í pokahlaupi, sippi, rúsínuspýtingum, bangsakasti, stígvélasparki, húshlaupi…og svo mætti lengi telja…
Í hádegismat voru dýrindis flatbökur sem við borðuðum úti í veðurblíðunni. Eftir hádegi fórum við í gönguferð í leit að íshelli…eftir dágóða leit að hellinum í hrauninu báðum við Guð um að hjálpa okkur að finna hann, og mínútu síðar öskraði einn foringinn "hérna er hann"!
Eftir gönguferðina fengum við bananabrauð og appelsínukökur…NAMMINAMM. Eftir kaffitímann var ratleikur og loks fengum við rjómaostsfylltar fiskibollur (frá fiski-jólasveininum, nota bene) í kvöldmatinn.
Í þessari viku hefur gengið yfir "Svo þú heldur að þú kunnir að dansa?"-æði meðal foringja. Af því tilefni sýndu nokkrir strákar "frumsaminn" dans við lagið "Ãkt elding" á kvöldvökunni, við mikinn fögnuð viðstaddra!
Ekki spillti fyrir, þegar drengirnir voru allir komnir í rúmið, að inn í herbergin réðust brjálaðir foringjar með klósettpappír vafinn um hausinn og potta og pönnur að vopnum. Þeir hrópuðu "hæ hó jibbí jei og jibbí jei, það er komið náttfatapartý". Strákarnir þutu upp í samverusalinn á náttfötunum, með svefnpokana í annarri, og saman gláptum við á myndina "Hvernig borða skal steikta orma" meðan við snæddum poppkorn. Nú eru strákarnir loks komnir í bólið og fá að sofa hálftíma lengur í fyrramálið því á morgun er stór dagur: VEISLUDAGUR!
Myndir
hér