Sökum internet-vandamála tókst ekki að setja inn frétt í gærkvöldi, en hér kemur þá yfirlit yfir daginn í dag auk gærdagsins.
Einnig þarf að bæta við að netið var ekki það eina sem var í ólagi í gær og í dag, því síminn tók upp á því í morgun meðan á símatíma stóð að hætta að gefa frá sér hljóð. Forstöðukonan sat því í klukkutíma með kalt kaffi í bolla inná skrifstofu og skildi ekki upp né niður í því afhverju foreldrarnir hringdu ekkert til að forvitnast um börnin sín. Nú er búið að lagfæra þessi vandamál og símatími verður því á morgun á venjulegum tíma. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að láta gammin geysa um uppákomur og fjörleg uppátæki sem hafa átt sér stað síðastliðina 38 klukkutíma.
Við foringjarnir og sérlegir utanaðkomandi aðstoðarmenn vorum fyllt tilhlökkunar að taka á móti 15 stuðboltum fyrr utan Lækjarskóla í gærmorgun. Smám saman byrjuðu þær að mæta á svæðið, allar glaðar, sumar kannski örlítið smeykar í tillegg eins og eðlilegt er. Á leiðinni inní Kaldársel fór mestallur tími í að skiptast á nöfnum og slíku og þannig gekk túrinn hratt og greiðsamlega. Þegar rútan stoppaði á hlaðinu fyrir utan Kaldársel var töskunum hrúgað út og stelpurnar drifnar inní matsal þar sem grundvallarreglur og grunnskipulag Kaldársels var kynnt fyrir verðandi Kaldæingunum. Veðrið var yndislegt og strax eftir hádegismatinn héldum við í göngu í Kaldárselshella þar sem við könnuðum hella og sprungur hins sjö þúsund ára gamla Búrfellshrauns sem rann framhjá Kaldárseli í átt að Álftanesi á sínum tíma. Eftir að einstaka stelpu hafði verið bjargað eftir að hafa fest sig í völundarhúsinu héldum við heim á leið þar sem tók við frjáls tími. Þar var hægt að velja um ýmislegt, allt frá kofasmíð til listavinnu. Það sást glögglega þegar litið var yfir handbragð stúlknanna að hér er um einstaklega skemmtilegar og hugmyndaríkar stelpur að ræða. Eftir kvöldmat var hin týpíska sumarbúða-kvöldvaka og það var yndisleg stund. Undir hugleiðingunni var djúpasta þögn sem "heyrst" hefur í Kaldárseli og söngurinn var svo hressilegur og dýnamískur að hætt var við að gólfið hrindi í átökunum. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og að loknu áti voru stelpurnar sendar í rúmið og þar tóku herbergisforingjar við og lásu kvöldsögu fyrir svefninn.
Dagurinn í dag (2. júní) var engan vegin síðri. Það var algjör ró þegar vekja átti stelpurnar en þær vöknuðu ljúflega og voru klárar í slaginn. Morgunmaturinn gaf orku og á morgunstund var mikið rætt og spekúlerað. Eftir nokkra söngva til að koma raddbönunum í gang var hópnum hleypt út í sólina og stelpurnar héldu áfram með kofana sína, léku sér víðsvegar um svæðið eða höfðu það huggulegt og lituðu eða föndruðu. Eftir hádegismat labbaði þessi flotti hópu galvaskur til að kíkja á álfakirkjuna í hrauninu. Það er skemmtilegur staður sem býður uppá klifur, útsýni og einstaka hraunskrámur. Allt gekk þó að mestu leyti greiðlega og það var mikið hlegið og grínað. Þar sem veðrið var svo gott kom eiginlega ekki neitt annað til greina en að klæða sig í baðfötin og busla svolítið í ánni. Þar sem svo lítið var í henni og hún búin að taka á sig mynd hálfgerðar tjarnar, var stutt í botn og drullan gerði góða hluti meðal bæði barna og fullorðinna. Fjölmörgum sturtum og drullukökum síðar var komið að kvöldmat og Lasagna mett ungmenni héldu uppí hátíðarsal til að halda kvöldvöku. Hún gekk eins vel og daginn áður nokkrar stelpnanna voru með skemmtilegt dans/söng/leik-atriði fyrir okkur hin. Eftir kvöldvökuna var eins og venjulega í Kaldárseli kvöldkaffi fyrir þá sem voru orðnir svangir og svo beint í háttinn. Það er dásamlegt fyrir okkur foringjana að upplifa hversu frábærar stelpurnar eru.
Kveðja úr Kaldárseli!